Tillaga um breytt fyrirkomulag formannskjörs

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fer 21. maí n.k. mun Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður sambandsins, mæla fyrir tillögu um breytingar á samþykktum sambandsins.

Tillögurnar eru aðgengilegar í vinnuskjali sem liggur frammi á vefsíðu sambandsins.

Sú tillaga sem felur í sér mesta breytingu frá gildandi samþykktum er um að formaður verði framvegis kosinn beinni kosningu, fyrir landsþing sem haldið er að loknum sveitarstjórnarkosningum. Greinin í heild hljóðar svo:

Formaður stjórnar sambandsins skal kosinn sérstaklega með beinni, rafrænni kosningu. Um kjörgengi til embættis formanns fer skv. 7. mgr. 11. gr.

Framboðsfrestur til formannskjörs rennur út 15. júlí. Kjörnefnd, sbr. 9. gr., hefur eftirlit með framkvæmd atkvæðagreiðslu og gerð kjörskrár, og sker úr um kjörgengi frambjóðenda.

Frambjóðendur eiga rétt á að tilnefna umboðsmann til að fylgjast með undirbúningi og framkvæmd kosningar.

Rétt til þátttöku í formannskosningu eiga landsþingsfulltrúar og skal rafræn kjörskrá liggja fyrir 20. júlí og vera byggð á kjörbréfum sem hafa borist frá sveitarfélögum fyrir 15. júlí, sbr. 5. gr. Einungis er heimilt að gera leiðréttingar á kjörskrá ef sýnt er fram á að tilkynning hafi verið send eigi síðar en 15. júlí.

Kosningin skal hefjast 15. ágúst og standa í tvær vikur. Úrslit skulu kynnt þegar þau liggja fyrir.

Láti formaður af störfum kýs stjórn sambandsins nýjan formann úr sínum hópi, til loka kjörtímabils.

Í tillögunum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir ýmsum öðrum breytingum um framkvæmd stjórnarkjörs. Að hluta snúast þær breytingar um að taka mið af tillögu um breytt fyrirkomulag formannskjörs ásamt því að skerpa á kröfum til breytingartillagna. Til viðbótar er lögð til sú breyting að eingöngu kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum verði kjörgengir í stjórn, sem felur í sér þrengingu frá gildandi reglum um kjörgengi.

Gert er ráð fyrir því að kjörnefnd ljúki gerð tillögu um stjórnarkjör þegar niðurstaða formannskjörs liggur fyrir, enda hefur niðurstaða formannskjörs áhrif á skiptingu stjórnarsæta eftir kjörsvæðum. Bætt er við ákvæði um að kjörnefnd skuli gæta þess í tillögum sínum að skipan stjórnar skuli eftir fremsta megni endurspegla að sveitarfélögin eru ólík að stærð, gerð og staðsetningu.

Endanleg tillaga kjörnefndar verði kynnt landsþingsfulltrúum eigi síðar en viku fyrir setningu landsþings, til að gefa aukið svigrúm til að undirbúa breytingartillögur. Kjörnefnd gerir síðan nánari grein fyrir tillögunni á landsþingi, samkvæmt venju.

Loks er tilefni til að nefna nýtt ákvæði um hlutverk formanns sambandsins.