Í grein í Morgunblaðinu 4. maí sl. rekur mennta- og menningarmálaráðherra það mikla þrekvirki sem unnið var á örfáum sólarhringum af stjórnendum og starfsfólki við skipulag og framkvæmd skólahalds dagana áður en samkomubann tók gildi þann 16. mars sl.
Í grein í Morgunblaðinu 4. maí sl. rekur mennta- og menningarmálaráðherra það mikla þrekvirki sem unnið var á örfáum sólarhringum af stjórnendum og starfsfólki við skipulag og framkvæmd skólahalds dagana áður en samkomubann tók gildi þann 16. mars sl. Fram kemur að frá því að auglýsingar um takmarkanir á skólahaldi voru birtar fylgdist ráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands náið með skipulagi og framkvæmd skólastarfs í leik- og grunnskólum.
Óhætt er að segja, að þrátt fyrir að ýmsum hafi þótt sú ákvörðun sóttvarnaryfirvalda umdeilanleg að halda leik- og grunnskólum opnum á tímum samkomubanns megi svo sannarlega segja að starfsemi þeirra hafi gengið vonum framar og útfærslur hafi verið bæði skapandi og fjölbreyttar þar sem velferð nemenda var höfð að leiðarljósi. Miklu máli skipti sá mikli samtakamáttur sem einkenndi alla ákvarðanatöku og aðgerðir og þar voru allir, nemendur, foreldrar, kennarar og stjórnendur, á sama báti.
Nú þegar létt hefur verið á samkomubanni og skólahald er óðum að færast í eðlilegt horf er mikilvægt að horfa til þess með hvaða hætti lokanámsmati vetrarins verður hagað, sér í lagi 10. bekkjar, og áhrifa þess á inntöku í framhaldsskóla. Ráðherra leggur á það áherslu að tryggja þurfi eins og unnt er jafnræði nemenda við innritun í framhaldsskóla. Námsmatið verði með mismunandi hætti en framkvæmd á birtingu lokamats úr grunnskóla þurfi að vera eins samræmd og mögulegt er. Reynt hefur verið með góðu samstarfi milli aðila að tryggja farsæla innritun nemenda í framhaldsskóla fyrir haustönn 2020 og hafa Skólastjórafélag Íslands og Skólameistarafélag Íslands lagt á það áherslu að huga sérstaklega að þeim nemendum sem þarfnast sérstaks utanumhalds.