Þrátt fyrir að hægar gangi nú að selja íbúðir en oft áður þá eru merki um að þörf fyrir húsnæði sé á sama tíma að aukast. Þetta kemur fram í nýrri íbúðaþarfagreiningu Intellicon fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).
- Slæm staða byggingaraðila nú gæti aukið framboðsskort á næstu árum
- 70% fækkun nýframkvæmda á byggingamarkaði á milli ára
- Færri munu búa í hverri íbúð og mun fleiri munu vilja kaupa og leigja ef þjóðinni heldur áfram að fjölga hratt
- Greiningaraðilar hafa áður spáð samdrætti í eftirspurn á húsnæðismarkaði sem ekki hefur raungerst. Endurtekur leikurinn sig?
- Ítarlegar niðurstöður íbúðaþarfagreiningarinnar verða kynntar á opnum fundi í HMS á þriðjudaginn kl.10.
Þetta kemur fram í frétt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar nú í morgun. Þar kemur einnig fram að vegna öldrunar þjóðarinnar og breytinga á lífsháttum hafa fjölskyldur farið minnkandi og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram. Vegna þessa ættu til lengri tíma að verða færri íbúar um hverja íbúð og draga má þá ályktun að skortur á íbúðum hafi tímabundið hægt á þessari þróun. Þróun mannfjölda á Íslandi hefur ráðist aðallega af aðflutningi fólks til landsins en ekki náttúrulegri fjölgun. Lægri fæðingartíðni þýðir að án aðflutnings færi landsmönnum fækkandi. Þessi þróun gerir mannfjöldaspár torveldar og þar af leiðandi spár um íbúðaþörf.
Ítarlegar niðurstöður íbúðaþarfagreiningarinnar og mat framvindu nýbygginga verða kynntar á opnum fundi í HMS á þriðjudaginn kl.10.