Þjónustukannanir Byggðastofnunar

Íbúar í Vopnafjarðarhreppi sækja þjónustu til þjónustuaðila á Akureyri í um fimmtung tilvika, á meðan 3-5% þjónustunnar er sótt þangað af íbúum annarra sveitarfélaga á Austurlandi, samkvæmt niðurstöðum úr þjónustukönnunum Byggðastofnunar.

Thjonustukonnun-ByggdastofnunarÍbúar í Vopnafjarðarhreppi sækja þjónustu til þjónustuaðila á Akureyri í um fimmtung tilvika, á meðan 3-5% þjónustunnar er sótt þangað af íbúum annarra sveitarfélaga á Austurlandi, samkvæmt niðurstöðum úr þjónustukönnunum Byggðastofnunar.

Þá sækja íbúar í Sveitarfélaginu Garði, Sandgerðisbæ og Vogum um 90% þjónustunnar út fyrir sitt búsetusvæði. Í Grindavík sækja íbúar aftur á móti um 60% þjónustunnar utan búsetusvæðisins og í Reykjanesbæ um 33% þjónustunnar, svo að örfá dæmi séu nefnd úr þessum viðamiklum könnunum.

Þjónustukannanir Byggðastofnunar eru hluti af  framkvæmd byggðaáætlunar 2014-2017 og er þeim ætlað að meta aðgengi íbúa að þjónustu og setja fram tillögur til úrbóta. Leitað er svara við því hvert og hversu oft íbúar sækja margvíslega þjónustu, með áherslu á hvort þjónustusókn sé mismunandi eftir búsetusvæðum.

Einnig var lögð áhersla á að kanna hvort þjónustusókn væri mismunandi innan hvers landshluta. Hverjum landshluta var því skipt upp í búsetusvæði eða þjónustusóknarsvæði í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Var svo litið á, að þjónustusókn íbúa innan hvers búsetusvæðis sé í meginatriðum lík en að þjónustusókn geti verið ólík eftir búsetusvæðum innan hvers landshluta.

Suðurnesjum var þannig skipt upp í fimm búsetusvæði, Vesturlandi í fimm, Vestfjörðum í fjögur, Norðurlandi eystra í átta, Austurlandi í fimm og Suðurlandi í átta búsetusvæði, samtals 35 búsetusvæði.

Í framhaldi af því að framkvæmd kannananna er nú lokið, verða lagðar fram tillögur til úrbóta þar sem þjónusta er ekki í samræmi við kröfur í nútímasamfélagi, að því er fram kemur í frétt á vef Byggðastofnunar. Í fréttinni segir einnig nánar frá framkvæmd kannananna.