Ný lög samþykkt um þjónustu við fatlað fólk og félagsþjónustu sveitarfélaga

Alþingi hefur samþykkt ný lög um þjónustu við fatlað fólk og breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka gildi 1. október nk. Með þessum breytingum verður notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) að lögfestu þjónustuformi.

AlthingiAlþingi hefur samþykkt ný lög um þjónustu við fatlað fólk og breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka gildi 1. október nk. Með þessum breytingum verður notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) að lögfestu þjónustuformi.

Samþykkt var samhljóða á þingfundi nú í dag, að lögfesta nýjan ramma um þjónustu við fatlað fólk samhliða því að gerðar verða breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Þessar breytingar taka gildi þann 1. október n.k. og munu þær hafa allvíðtæk áhrif á þá þjónustu sem sveitarfélög sjá um að skipuleggja og veita. Innleiðing Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks er meðal þeirra markmiða sem stefnt er að en jafnframt eru gerðar ýmsar breytingar sem vonir standa til að muni styðja við framþróun þjónustunnar á vettvangi sveitarfélaganna.

Ástæða er til að nefna sérstaklega notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem nú verður að lögfestu þjónustuformi. Ný lög gera ráð fyrir að þjónustuformið hafi fengið fulla innleiðingu eigi síðar en á árinu 2022, en jafnframt er tekið fram að fyrirkomulag NPA auk þeirra álitaefna sem upp koma við framkvæmd nýrra laga á tímabilinu skuli endurskoða fyrir 1. október 2021 í ljósi fenginnar reynslu.

Með gildistöku nýs lagaramma nú í haust verður jafnframt búið að setja reglugerðir sem ætlað er að mæla nánar fyrir um framkvæmdina. Starfshópar á vegum velferðarráðuneytisins fjalla nú um þessar væntanlegu reglugerðir og munu drög þeirra birtast á samráðsgátt stjórnvalda.

Fulltrúar m.a. frá sambandinu og samtökum félagsmálastjóra sitja  í þessum starfshópum, en sveitarfélög eru eindregið hvött til þess að fylgjast vel með birtingu á drögunum og senda inn umsagnir um þau atriði sem mesta þýðingu hafa í félagsþjónustu á hverjum stað fyrir sig.