Það er ekki í boði að skila auðu!

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var sett á Akureyri kl. 16:00 í dag.

Aldís Hafsteinsdóttir
Aldís Hafsteinsdóttir í ræðustóli á XXXVII. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í setningarræðu sinni minnti Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, á að þegar hún hlaut kosningu sem formaður fyrir fjórum árum var hún fyrsta konan til að hljóta kjör, en hún var einnig fyrsta konan sem bauð sig fram til formennsku.

Aldís sagði að undangengin fjögur ár hafi markast af óvissutímum – fordæmalausum tímum – tímum þar sem við vorum öll að fikra okkur áfram á vegferð sem enginn hafði áður gengið.

Heimsfaraldur Covid 19 brast á af fullum þunga snemma árs 2020. Við tók langur tími þar sem sveitarfélögin öll – samfélagið allt – heimsbyggðin öll – þurfti að bregðast við áður óþekktum áskorunum. Ótti, veikindi, andlát, skert þjónusta, grímunotkun, spritt og ekki síst fjarvinna setti mark sitt á næstu tvö árin. Fáir höfðu búist við slíku en þarna sýndu sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga hversu megnugir þeir eru og ekki síður hversu vel var brugðist við þeim aðstæðum sem þarna sköpuðust.

Í ræðu sinni ræddi Aldís á vinnu við eflingu sveitarstjórnarstigsins, sú vinna tók langan tíma og fólst í ítarlegu samráði við sveitarstjórnarmenn út um allt land. Afrakstur þeirrar vinnu var þingsályktunartillaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem samþykkt var á Alþingi.

Aldís sagði að verkefni sambandsins muni á næstunni verða fólgin í verkefnum tengdum heimsmarkmiðunum, loftslagsmálum og áskorunum í sorpi og úrgangsmálum. Annað risavaxið verkefni er stafræn umbreyting og framþróun sem svo sannarlega er það sem koma skal. t

Minn draumur var að okkar smáa og fámenna samfélag myndi ganga sem einn maður í átt að stafrænu Íslandi. Að við myndum ná að nýta fjármuni skynsamlega og í sameiningu vinna þau verkefni sem nauðsynleg eru til að ná árangri á því sviði.

Það er ekki í boði að skila auðu!

Loks ræddi Aldís um mikilvægi þess að tekjustofnar sveitarfélaga verði auknir svo þau geti sinnt þeirri þjónustu sem þau lögum samkvæmt eiga að veita og málefni Tekjustofnanefndar.

Eitt meginverkefni nefndarinnar var skilgreint þannig að hún átti að leita lausna til að auka fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga þannig að þjónusta við íbúana verði sem best tryggð. Nú liggja fyrir drög að lokaskýrslu nefndarinnar. Og hvað gera þá fulltrúar ríkisins í nefndinni? Þeir skila auðu! Einu tillögurnar sem eru í skýrslunni eru frá fulltrúum sambandsins. Þær eru vel rökstuddar, fjölbreyttar og nákvæmlega útfærðar. Hluti þeirra fjallar að sjálfsögðu um að ríkið auki fjárframlög til þjónustu við fatlað fólk um meira en 10 ma.kr. Öll greining vegna þessa liggur fyrir og nú verður ríkisstjórnin og Alþingi að taka á málinu.

Þó embættismenn ríkisins í tekjustofnanefndinni skili auðu, þá er það ekki í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Það verður að styrkja tekjugrunn sveitarfélaga og tryggja þannig rekstrarhæfni sveitarstjórnarstigsins og tryggja þjónustu, mikilvæga nærþjónustu, við íbúa landsins. Það er ekki í boði að skila auðu enn eina ferðina !

Að lokum þakkaði Aldís fyrir samstarfið innan stjórnar sambandsins og sagði:

Nú þegar ég stíg til hliðar sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og stíg jafnframt út úr stjórninni eftir 15 ára viðburðaríka setu vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem ég hef starfað með á þeim vettvangi, stjórnarmönnum sem starfsmönnum Sambandsins og framkvæmdastjóra. Ég vil einnig þakka ykkur öllum, sveitarstjórnarmönnum landsins fyrir einstaka velvild og gott samstarf. Ég stíg til hliðar auðmjúk og þakklát fyrir góðan og skemmtilegan tíma. Vitandi það að sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórnastigið mun áfram að leggja grunninn að góðu samfélagi. Ekki fyrir okkur sjálf- heldur fyrir íbúa landsins. Um leið og ég óska nýkjörnum formanni Sambandsins og tilvonandi stjórn velfarnaðar segi ég landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sett.