Talning atkvæða í þingkosningum

Að loknum alþingiskosningunum hefur töluvert verið rætt um hve atkvæðatalningin tók langa tíma. Það er svo sem ekkert nýtt og hefur verið viðvarandi í undangengnum kosningum.

Þar kemur einkum tvennt til:

Magnús Karel Hannesson
Magnús Karel Hannesson skrifar:

Lög kveða á um að atkvæði skuli talin á einum stað í hverju kjördæmi og yfirkjörstjórn hvers kjördæmis hefur ákvarðanavald um hvar það skuli gert. Í landsbyggðarkjördæmunum var ákveðið að atkvæðin skyldu talin í Borgarnesi, á Akureyri og á Selfossi. Allir eru þessir staðir eru á ystu mörkum kjördæmanna, nema helst í Suðurkjördæmi. Það leiðir til þess að flytja þarf kjörkassa og kjörgögn um langan veg. Frá Djúpavogi eru 400 km til Akureyrar; frá Ísafirði til Borgarness eru 346 km; og frá Höfn í Hornafirði eru 401 km til Selfoss og þaðan til Keflavíkur 108 km. Augljóst er að auk þessara gríðarlegu vegalengda geta válynd veður og ófærð tafið flutning atkvæða og kjörganga á þessa þrjá talningarstaði úti á landi.

Annað sem tefur atkvæðatalninguna er að kjósendur geta kosið tvisvar, bæði utan kjörfundar og síðan aftur á kjörfundi. Talning utankjörfundaratkvæða getur því ekki hafist fyrr en að loknum kjörfundi.

Þessa ágalla báða hefði mátt laga þegar Alþingi samþykkti heildstæð kosningalög í júní 2021.

Haustið 2019 skilaði starfshópur um endurskoðun kosningalaga tillögum sínum í formi frumvarps um ein heildstæð kosningalög. Forseti Alþingis gerði þetta frumvarp að sínu og lagði það fram á Alþingi óbreytt. Í umfjöllun Alþingis var þó í ýmsum atriðum vikið frá frumvarpi starfshópsins og forseta Alþingis. Það átti m.a. við um þau ákvæði sem lutu að talningu atkvæða og utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

Í frumvarpinu var lagt til að talning atkvæða yrði á forræði kjörstjórna í hverju sveitarfélagi fyrir sig í stað þess að flytja atkvæðin á einn talningarstað í hlutaðeigandi kjördæmi. Tillagan var byggð á því fyrirkomulagi sem tíðkast í flestum nágranna ríkjum okkar, en þar eru kjörstaðir mun fleiri en hér og oftast talið á hverjum þeirra fyrir sig. Þessi tillaga naut ekki náðar í meðförum þingsins.

Áfram munum við því búa við óbreytt fyrirkomulag og flutningur atkvæða og kjörgagna um langan veg tefja talninguna.

Kjósendur kjósi aðeins einu sinni

Rök Alþingis fyrir því að viðhalda núverandi kerfi voru þau, að allt mælti „frekar með því að byggt verði á þeim stöðugleika sem felst í þeirri þekkingu og reynslu á framkvæmd kosninga sem yfirkjörstjórnir kjördæma búa yfir og mikilvægt er að tryggja“, eins og sagði í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Á hinn bóginn má halda því fram að reynsla og þekking kjörstjórnarmanna sveitarfélaganna sé ekki minni en þeirra sem sitja í yfirkjörstjórnum kjördæmanna. Dæmi má taka úr Suðurkjördæmi, en þar hefur verið mjög mikil endurnýjun yfirkjörstjórnarmanna eftir hverjar kosningar frá 2009 og því ekki tryggður mikill stöðugleiki í framkvæmdinni, þó vitað sé að framkvæmdin er með ágætum í kjördæminu. Í sveitarfélögunum sitja jafnan sömu menn, konur og karlar, ártugum saman í kjörstjórnum. Þar hefur safnast upp mikil þekking og reynsla á framkvæmd kosninga. Öllum er þessum sömu kjörstjórnum fullkomlega treyst til þess að telja atkvæði í sveitarstjórnarkosningum. Það má einnig af gefnu tilefni velta því fyrir sér, hvort talning atkvæða í hverju og einu sveitarfélagi myndi ekki minnka lýkur á mistökum við talninguna - bunkarnir yrðu minni og auðveldara að stemma talninguna af.

Í frumvarpi starfshópsins og forseta Alþingis var einnig lagt til að kjósendur gætu aðeins greitt atkvæði einu sinni, það er annað hvort á kjörfundi eða utan kjörfundar. Þessi háttur er m.a. í danskri, norskri og finnskri kosningalöggjöf. Í Danmörku lýkur utankjörfundaratkvæðagreiðslu þremur virkum dögum fyrir kjördag, í Noregi á föstudegi fyrir kjördag, sem er á mánudegi og í Finnlandi lýkur utankjörfundaratkvæðagreiðslu fimm dögum fyrir kjördag. Hér á landi geta kjósendur greitt atkvæði utan kjörfundar til kl. 17 á kjördag. Að taka upp fyrirkomulag að norrænni fyrirmynd myndi auðvelda alla meðhöndlun atkvæða sem greidd eru utan kjörfundar og hægt væri að byrja á því að flokka þau og telja fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi lýkur. Þessi tillaga naut ekki heldur náðar í meðförum þingsins.

Áfram munum við því búa við óbreytt ástand og atkvæði greidd utan kjörfundar munu áfram tefja talninguna.

Eins og verið hefur mun þessi framkvæmd áfram vera í höndum átta embættismanna ríkisins, sýslumanna, þó heimild sé til frávika. Í öðrum norrænum ríkjum er greiðsla atkvæða utan kjörfunda á hendi sveitarfélaganna og aðgengið auðveldara. Þar er sveitarfélögunum fullkomlega treyst fyrir framkvæmd hennar.

Sveitarfélögin sjá um talningu í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð

Í þingkosningunum í Danmörku 2019 var talið á 1.384 kjörstöðum vítt og breitt um landið. Fámennasti kjörstaðurinn var með 29 kjósendur á kjörskrá og af þeim greiddu 23 atkvæði. Alls staðar var kjörstöðum lokað kl. 20 og fjórum og hálfum tíma seinna var búið að telja öll atkvæði í landinu og úrslitin þá strax birt. Kjörbréf til alþingismanna eru þó ekki gefin út að þessum niðurstöðum fengnum því þá er eftir að ganga úr skugga um hvort tilfærsla einstakra frambjóðenda á listunum hafi áhrif á hvaða einstaklingar hljóta þingsæti. Það getur tekið einhvern tíma en breytir ekki niðurstöðum um þingmannafjölda flokkanna. (Það er ekki ólíkt því sem viðgengst hér.)

Í Noregi sjá kjörstjórnir sveitarfélaganna um talningu atkvæða og eru þau talin tvisvar í hverju sveitarfélagi og úrslitin síðan birt. Síðar fer svo fram svokölluð eftirlitstalning hjá fylkisstjórnunum. Norðmenn geta bara kosið einu sinni annað hvort utan kjörfundar eða á kjörstað á kjördegi. Talning þeirra atkvæða getur hafist á sunnudegi fyrir kjördag en kjördagur í Noregi er á mánudegi.

Fyrri talning kjörstjórnanna er unnin handvirk en í þeirri síðari geta kjörstjórnirnar talið atkvæðin vélrænt með skönnun seðlanna og tölvubúnaði sem ríkið lætur sveitarfélögunum í té. Af 356 sveitarfélögum var sú tækni notuð í 186 sveitarfélögum við síðari talninguna í síðustu kosningum.

Í frumvarpi starfshóps um endurskoðun kosningalaga sem forseti Alþingis lagði óbreytt fyrir Alþingi í júní sl. voru skýr ákvæði sem leitt hefðu til þess að talning atkvæða hefði orðið skilvirkari og gengið hraðar fyrir sig. Þau ákvæði voru felld út í meðförum þingsins.

Áfram hjökkum við því í sama farinu með talningu atkvæða í þingkosningum.

Sjá nánar:

Alþingi:

Danmörk:

Noregur:

Svíþjóð:

Finnland: