Kallað er eftir beinum aðgerðum á vegum sveitarfélaga í fimm af þeim 18 tillögum sem lagðar eru til í drögum samráðsvettvangs umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðaáætlun í plastmálefnum. Aðgerðirnar varða allt frá grænum innkaupum að skólphreinsun og flokkun úrgangs.
Kallað er eftir beinum aðgerðum á vegum sveitarfélaga í fimm af þeim 18 tillögum sem lagðar eru til í drögum samráðsvettvangs umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðaáætlun í plastmálefnum. Aðgerðirnar varða allt frá grænum innkaupum að skolphreinsun og flokkun úrgangs.
Í minnisblaði sem Lúðvík E. Gústavsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga innan samráðsvettvangsins, hefur tekið saman kemur fram að aðgerðir 6, 9, 14, 15 og 17 muni koma til beinna kasta sveitarfélaga, gangi umrædd drög eftir.
Segir þar m.a. að tillögurnar séu áskorun til sveitarfélaga um að nýta sér til fulls þær lagalegu heimildir sem þau hafa til að stýra úrgangsefnum í tiltekna farvegi. Þá verði ríkisvaldið, sveitarfélögin og atvinnulífið að beita sér fyrir hentugum endurvinnslumöguleikum ásamt hagrænu hvatakerfi með t.a.m. úrvinnslugjaldi, skattaívilnunum og þjónustugjaldi á urðunarstaði vegna endurvinnsluverkefna, svo að dæmi séu tekin.
Ef litið er til þeirra einstöku aðgerða sem snerta sveitarfélögin beint, þá snýr aðgerð 6 að innkaupum stjórnvalda, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, og þeim tækifærum sem þau hafa til að draga úr plastnotkun með grænum innkaupum. Felur tillagan því í sér beina hvatningu til sveitarfélaga að huga að hagstæðum magninnkaupum og greiða fyrir innra upplýsingaflæði, sem stutt getur við græn innkaup hjá sveitarfélögum, hverju og einu fyrir sig eða fleirum í sameiningu.
Í aðgerð 9 er lagt til að sér flokkun nokkurra lykiltegunda úrgangs verði leidd í lög, þ.m.t. flokkun plastsúrgangs. Tilgangur flokkunar er endurvinnsla, og eftir föngum endurnýting þar sem endurvinnsla plasts er tæknilega erfið og/eða fjárhagslega óhagkvæm. Lúðvík bendir í þessu sambandi á, að stöðugir endurvinnslufarvegir séu forsenda þess að koma megi á fót starfhæfu flokkunarkerfi, sem allir landsmenn þekki og geti notað óháð búsetu. Því má svo bæta við að aðgerð 9 tónar að mörgu leyti vel við aðgerðir 10 og 12 um álagningu úrvinnslugjalds á allt plast og styður auk þess við endurvinnslu plasts með hagrænum hvötum, svo sem skattaívilnunum.
Aðgerð 14 felur í sér tillögu um aukna hreinsun skólps þar sem núverandi eins-þrepa hreinsun, s.s. á höfuðborgarsvæðinu, heldur plastögnum ekki eftir nema í óverulegum mæli. Veitufyrirtæki eru þegar farin að skoða nýjar lausnir í þessum efnum, en ljóst er að mati Lúðvíks að slík viðbótarhreinsun verður kostnaðarsöm. Samtök veitufyrirtækja sveitarfélaga, Samorka, þurfi því að vinna að heildarúttekt á mögulegum lausnum til að fanga örplast.
Aðgerð 15 beinist að fjölgun settjarna í frárennsli þéttbýlis, til að koma í veg fyrir að örplast berist með ofanvatni í umhverfið, ekki hvað síst í hafið. Þessi aðgerð felur það í sér, að rannsóknir verði gerðar á umfangi losunar og, í framhaldinu, þeim lausnum sem hentugastar þykja til að hindra frekari plastmengun hafsins.
Þá kallar aðgerð 17 á samvinnu allra hlutaðeigandi aðila um hreinsun strandlengjunnar af plasti. Hér gætu sveitarfélög tekið frumkvæði og staðið fyrir að reglubundnum aðgerðum, s.s. í tengslum við árvissar vorhreinsanir á þeirra vegum. Jafnframt bendir Lúðvík á, að nauðsynlegt sé að hentugur farvegur skapist fyrir söfnun þess plasts sem safnast með þessu móti, s.s. með endurvinnsla þar sem það er tæknilega mögulegt.
Tillögur samráðsvettvagnsins eru nú komnar á samráðsgáttina. Umsagnarfrestur er til 3. desember nk. og eru sveitarfélög hvött til að láta sig málið varða. Unnið er að umsögn á vegum sambandsins.