Sveitarfélög hvött til að sækja um styrk til fráveituframkvæmda

Frestur til að sækja um styrk til fráveituframkvæmda er til 1. september nk. en opnað var fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki þann 13. júní sl.  Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hefur aðeins eitt sveitarfélag skilað inn umsókn.

Sambandið hvetur sveitarfélög til að skoða hvort styrkur til fráveituframkvæmda geti nýst þeim en umsóknarfrestur er til 1. september 2023. Umsækjendur geta nálgast rafrænt styrkumsóknarform á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Þetta er í þriðja skipti sem fráveitustyrkir eru auglýstir til umsóknar. Samkvæmt reglugerð um úthlutun styrkja til fráveitna sveitarfélaga nemur styrkfjárhæð að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði og að jafnaði aldrei lægri en 15%.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Í fjárlögum vegna ársins 2023 er gert ráð fyrir að 600 m.kr. verði varið til þess að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda.

Frétt sambandsins um styrkina.