Apostolos Tzitzikostas, forseti Svæðanefndar Evrópusambandsins, ræddi í nýlegu viðtali mikilvægi sveitarstjórna þegar kemur að endurreisn hagkerfa Evrópu. Því sé gríðarlega mikilvægt að sveitastjórnarstigið sé haft með í ráðum við framkvæmd Covid-19 efnahagspakka ESB, s.k. „Recovery and Resilience Facility“.
Covid-19 efnahagspakki ESB hljóðar upp á 750 milljarða Evra. Í ljósi þess að meira en 90% sveitarfélaga í Evrópu horfa upp á umtalsvert tekjufall benti Apostolos Tzitzikostas á að það sé grundvallaratriði að hluti þessa fjármagns verði nýtt til að tryggja innviði og þjónustu sveitarfélaga álfunnar.
Framkvæmdastjórn ESB tekur undir þetta og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lýsti því yfir nýverið að evrópsk sveitarfélög gegni lykilhlutverki í endurreisn hagkerfa Evrópu. Apostolos Tzitzikostas fagnaði þessum orðum Von der Leyen. Í þeim felist viðurkenning á mikilvægi sveitartstjórnarstigsins og skýr skilaboð til aðildarríkja ESB um beina aðkomu sveitarfélaga að ákvörðunartöku í tengslum við endurreisn hagkerfa Evrópu.
Þá hafa Svæðanefnd Evrópusambandsins og Evrópusamtök sveitarfélaga tekið höndum saman til að tryggja að sveitarstjórnarstigið eigi fulla aðild að ákvörðunartöku ESB í tengslum við Covid-19 efnahagspakkann. Markmiðið er að áherslur og þarfir sveitarfélaga séu teknar til greina m.a. við gerð s.k. „National Recovery Plans“, en í þessum landsáætlunum verður tilgreint með hvaða hætti styrkjum og lánum í tengslum við efnahagspakka ESB verður ráðstafað innan hvers ríkis fyrir sig.
Ísland á ekki aðild að Covid-19 efnahagspakka ESB, en ljóst er að það sama gildir hér á landi þegar kemur að endurreisn hagkerfis Íslands. Sveitarfélög gegna þar lykilhlutverki.