Sunnlendingar frekar fylgjandi sameiningu

Verkefnishópur Sveitarfélagsins Suðurlands hefur lagt til við sveitarstjórnir Ásahrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður sem lýkur með því að íbúar kjósa um sameiningu sveitarfélaganna á næsta ári.

Endanleg ákvörðun um sameiningu verður tekin á fundum sveitarstjórna síðar í desember.

Zenter rannsóknir gerðu viðhorfskönnun meðal íbúa þeirra fimm sveitarfélaga sem eiga aðild að Sveitarfélaginu Suðurlandi og reyndust 69% þeirra sem tóku afstöðu hlynnt því að sveitarfélögin taki upp formlegar sameiningarviðræður sem enda með íbúakosningu, en um 16% andvíg.

Andstaða við sameiningu var mest í Ásahreppi en þar voru þó stuðningsmenn nær jafn margir og þeir sem eru andvígir. Í hinum fjórum sveitarfélögunum er nokkuð góður meirihluti samþykkur sameiningu. Íbúar Skaftárhrepps eru jákvæðastir fyrir sameiningu, en 73% svarenda í hreppnum sögðust mjög eða frekar hlynntir sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög. Í Rangárþingi ytra og í Mýrdalshreppi var hlutfallið 62% en í Rangárþingi eystra var það 56%. Í Ásahreppi segjast 61% svarenda vera frekar eða mjög andvígir sameiningu og aðeins um 21% mjög eða frekar hlynntir.

Konur voru talsvert jákvæðari fyrir sameiningu en karlar, en 61% kvenna voru frekar eða mjög jákvæðar gagnvart sameiningu en móti 57% karla.

Verkefnið „Sveitarfélagið Suðurland“ ágætlega kynnt

Könnun Zenter rannsókna gefur til kynna að þeir sem hafa kynnt sér verkefnið „Sveitarfélagið Suðurland“ voru mun jákvæðari í garð sameiningar en þeir sem ekki þekktu til verkefnisins, en um 42% þeirra sem svöruðu höfðu þekktu til verkefnsins. Af þeim sem þekktu til verkefnisins voru 72% mjög eða frekar hlynntir sameiningu en 49% þeirra sem ekki höfðu kynnt sér verkefnið.