Styrkveitingar úr Menntarannsóknarsjóði 2023

Mennta- og barnamálaráðherra hefur úthlutað styrkjum úr Menntarannsóknarsjóði. Sótt var um tæpar 342 m.kr. og hlutu sex rannsóknarverkefni styrk að heildarupphæð 157,7 m.kr.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ásamt styrkþegum: Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Hreinsdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir (f.h. Hermínu Gunnþórsdóttur) og Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir. Mynd af vef Stjórnarráðsins.

Markmið Menntarannsóknasjóðs er að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna sem skapa og miðla þekkingu á viðfangsefnum skóla- og frístundastarfs sem leiða til umbóta í námi og kennslu og stuðla að farsæld barna og ungmenna. Lögð er sérstök áhersla á að efla samstarf rannsakenda við fagfólk í skóla- og frístundastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu 2030.

Styrkina hljóta að þessu sinni:

  • Freyja Hreinsdóttir fyrir verkefnið Kennsluefni í stærðfræði: framboð á Norðurlöndum og þarfir framhaldsskóla, 11,6 m.kr.
  • Hermína Gunnþórsdóttir fyrir verkefnið Að tala og læra íslensku í skólum, 30,9 m.kr.
  • Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir fyrir verkefnið Farsældarlögin í þremur sveitarfélögum: Innleiðing, framkvæmd og samsköpun þekkingar þvert á landamæri fagstétta, skólastiga og frístundastarfs, 31,2 m.kr.
  • Jóhanna Thelma Einarsdóttir fyrir verkefnið LANIS Skimunarlisti, 23,6 m.kr. Verkefnið snýr að þróun skimunartækis sem foreldrar eða leikskólakennarar geta nýtt til kanna málfærni barna á aldrinum þriggja ára.
  • Anna Kristín Sigurðardóttir fyrir verkefnið Sjálfbær starfsþróun kennara til að auka gæði náms og kennslu í íslensku og raungreinum með aðstoð myndbandsupptöku í kennslustundum, 29,4 m.kr.
  • Sigríður Ólafsdóttir fyrir verkefnið Kennsluleiðbeiningar með námsorðaforða: Innleiðing lista yfir íslenskan námsorðaforða og gæðatexta með námsorðaforða í læsismenntun grunnskólanema, 30,9 m.kr.

Styrkir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Hinu húsinu í gær. Um er að ræða aðra úthlutun úr sjóðnum en fyrsta úthlutun nýs Menntarannsóknasjóðs var í desember 2021.