Innviðaráðherra, hefur skipað stýrihóp um breytingar á byggingarreglugerð til loka árs 2024.
Stýrihópnum er ætlað að vinna tillögur um gagngerar breytingar á regluverkinu og einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka byggingarkostnað og leggja grunn að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Hópnum er ætlað að skila tillögum að úrbótum til ráðherra haustið 2024.
Lögð verður áhersla á að tillögurnar muni leiða til framfaraskrefa í bygginga- og mannvirkjagerð til framtíðar en markmiðið er að einfalda stjórnsýslu, auka gæði og neytendavernd og stuðla að aukinni nýsköpun og sjálfbærni. Í vinnu sinni á hópurinn að hafa til hliðsjónar tillögur OECD til úrbóta á lögum og reglum í byggingariðnaði, þ.m.t. að auka sjálfbærni, stafræna stjórnsýslu og gæði.
Vinnuhópar með fag- og hagsmunaaðilum
Stýrihópurinn mun vinna með fag- og hagsmunaaðilum og mynda vinnuhópa um einstök málefni til þess að tryggja samráð og samtal um bestu lausnir. Vinnuhóparnir sem þegar eru farnir af stað munu fjalla um eftirtalin málefni: Hönnunareftirlit, framkvæmda- og notkunareftirlit, lífferilsgreiningar (LCA), orkusparnaður og rekstur og stafræn þróun. Aðrir hópar sem munu fylgja í kjölfarið vinna með eftirtalin málefni: Hollusta og umhverfi, brunavarnir og öryggi í notkun, aðkoma, umferðarleiðir og innri rými, burðarþol og stöðugleiki, hringrásarhagkerfið og byggingarvörur og tryggingar. Vinnuhópur um stafræna þróun mun starfa þvert á alla hópa.
Stýrihópurinn er skipaður tveimur fulltrúum frá ráðuneytinu, tveimur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), einum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum frá Samtökum iðnaðarins. Hópurinn er skipaður eftirtöldum:
- Ingveldur Sæmundsdóttir, formaður, innviðaráðuneyti,
- Björn Karlsson, innviðaráðuneyti
- Hermann Jónasson, HMS
- Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, HMS
- Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga
- Sigurður Hannesson, Samtök iðnaðarins.
Með hópnum starfar Þórunn Lilja Vilbergsdóttir, lögfræðingur hjá HMS.