Stuðningur við sveitarfélög vegna móttöku barna á flótta

Mennta- og barnamálaráðherra vakti í vor athygli sveitarfélaga á því að rafrænt eyðublað til að sækja um stuðning vegna móttöku barna á flótta er aðgengilegt á Eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Nú er komið að síðari úthlutun en umsóknarfrestur er til og með 15. ágúst 2022.

Eyðublaðavefur Stjórnarráðsins

Mennta- og barnamálaráðherra veitir sveitarfélögum, þar sem börnin eru með búsetu, tímabundinn fjárstyrk. Um er að ræða síðari úthlutun tímabundins stuðnings við sveitarfélög við að taka á móti auknum fjölda barna á flótta. Með börnum á flótta er átt við börn sem hlotið hafa dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar skv. 73. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga eftir 4. mars 2022.

Síðari úthlutun að upphæð allt að 100.000 kr. fyrir hvert barn fætt árin 2004 til 2022 er ætlað að styðja við fjölbreytt tómstunda- og menntunarúrræði ásamt undirbúningi að skólastarfi haustið 2022. Úrræðin mega vera tengd tómstunda- og menntaúrræðum sem fyrir eru í boði í sveitarfélaginu.

Óskað er eftir einni umsókn frá hverju sveitarfélagi.

Allar fyrirspurnir skal senda á mrn@mrn.is