Mennta- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að veita tímabundinn fjárhagslegan stuðning til sveitarfélaga þar sem börn á flótta frá Úkraínu og fjölskyldur þeirra verða með búsetu.
Stuðningnum er ætlað að styðja við móttöku undirbúning á skólastarfi og virkja þátttöku barnanna. Þá er stuðningnum ætlað að styðja við náms- og félagsleg úrræði sveitarfélaga fram að skólabyrjun haustið 2022. Við ráðstöfun fjármagnsins verður leitast við að styðja við fjölbreytt úrræði sem mæta þörfum ólíkra aldurshópa barna og ungmenna 18 ára og yngri. Huga skal sérstaklega að ungmennum á aldrinum 16-18 ára og yngstu börnunum.
Úrræðin geta m.a. falist í:
- frístundastarfi
- íþrótta- og æskulýðsstarfi
- sumarskóla
- vinnuskóla
- námskeiðum í íslensku og íslenskri menningu
- lífleikninámskeiðum og - verkefnum
- samfélagsfræðslu
- virkni yngstu barnanna
Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti sótt um fjárhagslegan stuðning sem getur orðið allt að 200.000 krónur á hvert barn á aldrinum 0-18 ára. Fyrri helmingur stuðningsins greiðist í júní (vegna maí og júní) og síðari helmingur í ágúst (vegna júlí og ágúst). Fjármagnið færist frá ráðuneyti inn á reikning sveitarfélaga skv. upplýsingum á umsóknareyðublaði.
Áður en seinni hluti stuðningsins er greiddur út þurfa sveitarfélög að senda ráðuneytinu rafræna greinargerð um ráðstöfun á fyrri hluta stuðningsins. Þau þurfa einnig að skila uppfærðum upplýsingum um fjölda og aldursskiptingu barna sem njóta úrræða sveitarfélaga og í hverju úrræðin felast. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið, sem verður rafrænt, verða sendar út í lok maí.
Bréf mennta- og barnamálaráðherra sent sveitarfélögum 6. maí 2022