Framkvæma þarf hættumat vegna allrar náttúruvár og tryggja að mælar og upplýsingainnviðir standist tæknikröfur.
Þá er æskilegt að yfirfara núverandi fjármögnunarleiðir fyrir hættu- og áhættumat með það að markmiði að stuðla að því að það nái yfir alla náttúruvá. Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu 13. apríl sl.
Á fundinum kynnti Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands, skýrslu starfshóps, sem hafði það hlutverk að vinna skýrslu um stöðumat og áskoranir varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár. Hópurinn, sem var skipaður í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi í mars 2021, skilaði nýlega Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skýrslu sinni.
Stefnumörkun um náttúruvá mikilvæg
Ráðherra hefur ákveðið að setja af stað vinnu að stefnumörkun um náttúruvá á grundvelli skýrslu starfshópsins. Á stefnan að draga fram skýra mynd um forgangsröðun verkefna þannig að hægt verði að byggja á henni við gerð fjármálaáætlunar. Samhliða verður metið hvort þörf sé að heildarendurskoðun laga og reglugerða er varða náttúruvá.
Frá 2010 hefur hver náttúruváratburðurinn tekið við af öðrum og hafa þessir atburðir sýnt fram á mikilvægi þekkingar, vöktunar og réttra viðbragða. Voru á fundinum dregnar fram þær áherslur og verkefni sem nauðsynlegt er að halda áfram með, eða ráðast í innan málaflokksins á komandi árum til að auka seiglu íslensks samfélags og draga úr tjóni vegna náttúruvár, ekki síst vegna áhrifa loftslagsbreytinga.
Breyttar forsendur vegna ferðamennsku, byggðamynsturs og áhrifa loftslagsbreytinga
Starfshópurinn var skipaður þeim Stefáni Guðmundssyni, sem var formaður hópsins, Ástu Þorleifsdóttur, Kristni Hirti Jónassyni, Sigrúnu Ólafsdóttur, Bjarna Richter, Birni Oddssyni, Sigrúnu Karlsdóttur og Sunnu Björk Ragnarsdóttur.
Í skýrslu starfshópsins kemur fram að margt jákvætt hefur áunnist síðustu ár og áratugi þegar kemur að þekkingu á náttúruvá og viðbrögðum við náttúruváratburðum. Forsendur hafa þó líka verið að breytast og eru þar helstu áhrifavaldar breyting á byggðamynstri og landnýtingu, aukin ferðamennska og þekking á mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá og tíðni atburða.
Í tillögum sínum segir hópurinn að framkvæma þurfi hættumat vegna allrar náttúruvár og tryggja að mælar og upplýsingainnviðir standist tæknikröfur og að gera þurfi hættumat vegna allrar náttúruvár. Þá þurfi að styrkja sérþekkingu í málaflokknum þar sem skortur á sérhæfðu starfsfólki sé áskorun þeim stofnunum sem hafi lögbundið hlutverk varðandi náttúruvá. Eins þurfi að tryggja og viðhalda góðu samstarfi stofnana svo fjármunir og sérfræðiþekking nýtist sem best og byggja upp og viðhalda þekkingu á náttúruvá hjá almenningi og kjörnum fulltrúum. Þá sé æskilegt að yfirfara núverandi fjármögnunarleiðir fyrir hættu- og áhættumat með það að markmiði að stuðla að því að það nái yfir alla náttúruvá.