Stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2022-2026

Stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2022-2066 liggur nú fyrir. Breiður hópur sveitarstjórnarfólks tók þátt í að móta hana.

Gerð hennar hefur staðið yfir síðan í byrjun þessa árs. Eignarhald stefnumörkunarinnar er því víðtækt á sveitarstjórnarstiginu og mikill samhugur að baki henni. Nú tekur við vinna stjórnar og starfsmanna sambandsins við að finna leiðir til að ná þeim markmiðum sem fyrir liggja.

Sambandið hefur það lögbundna hlutverk að vera málsvari allra sveitarfélaga í samskiptum við ríkið og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna. Öll mál, þjónusta og viðfangsefni sem sveitarfélögin sinna eru því til umfjöllunar í starfsemi sambandsins á einn eða annan hátt. Kappkostað er að þróa nána samvinnu við Alþingi, ríkisstjórn, ráðuneyti og þær stofnanir ríkisins sem fjalla um mál er varða sveitarfélögin, svo framgangur þeirra verði í samræmi við áherslur sveitarfélaga í fyrirliggjandi stefnumörkun.

Efling sveitarstjórnarstigsins, aukin gæði í þjónustu sveitarfélaga og traust og sanngjörn fjármögnun hennar eru undirliggjandi markmið í öllu starfi sambandsins.  Gildandi stefnumörkun sambandsins er því leiðarljós alls þess er sambandið fæst við. Hlutverk þess er skýrt í þeim samþykkum sem um sambandið gilda og með samhljómi í stefnumörkuninni skapast frjór og sterkur grunnur fyrir sambandið að sækja fram til hagsbóta fyrir öll sveitarfélög.