Í ljósi loftslagsvár er fyrsta stefna íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum. Stefnan verður lögð til grundvallar við gerð aðgerðaáætlunar um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum.
Samkvæmt skýrslum vísindanefndar stendur Ísland frammi fyrir ýmsum áhrifum loftslagsbreytinga (sjá töflu úr skýrslu Loftslagsráðs að neðan).
Í stefnunni er sett fram framtíðarsýn stjórnvalda um að íslenskt samfélag og lífríki búi að viðnámsþrótti frammi fyrir loftslagsvá. Samkvæmt stefnunni verður aðlögun að loftslagsbreytingum höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku í samfélaginu, hvort heldur sem er hjá stjórnvöldum, stofnunum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða almenningi því ljóst er að greiningar og ákvarðanir framtíðarinnar þurfa að taka mið af loftslagsbreytingum. Samhliða því þurfi að leggja áherslu á rannsóknir, upplýsingagjöf og fræðslu svo allir hagaðilar og almenningur hafi þekkingu á viðfangsefninu og bestu fáanlegu upplýsingar til ákvarðanatöku.
Umhverfisráðherra skipaði starfshóp um aðlögun að loftslagsbreytingum í lok síðasta árs, en í honum sátu fulltrúar fimm ráðuneyta og nokkurra stofnana og hagaðila. Við vinnu sína horfði starfshópurinn m.a. til skýrslu Loftslagsráðs „Að búa sig undir breyttan heim“, vísindaskýrslna um afleiðingar loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og náttúru, en einnig stefnumótunar og aðgerða nágrannaríkja Íslands í þessum málaflokki.