„Það felst mikil áhætta í því að hafa jafnlaunamál ekki í lagi,“ sagði Helga Björg Ragnarsdóttir, framkvæmdastýra Jafnlaunastofu, í erindi sínu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sagði hún notkun starfsmatskerfa sem stuðli að launajafnrétti mikilvæga áhættustýringu og máli sínu til stuðnings nefndi hún reynslu stjórnvalda í Nýja sjálandi, í Birmingham í Bretlandi og fleiri aðila.
Í Nýja Sjálandi höfðaði Kristine Bartlett mál og krafðist þess að starf hennar við umönnun, sem konur gegna í miklum meirihluta, væri metið jafnverðmætt og starf fangavarðar, sem karlar gegna í miklum meirihluta. Niðurstaðan var á þá leið að störfin teldust jafnverðmæt og leiddi til þess að 55 þúsund einstaklingar fengu launaleiðréttingu á bilinu 14 til 49 prósenta. Kostnaður vegna þessa nam 184 milljörðum íslenskra króna.
Sambærilegt átti sér stað í Birmingham árið 2012 þegar konur sem störfuðu á hjúkrunarheimili höfðuðu mál vegna launamismunar þar sem þeim stóð ekki til boða að fá viðbótargreiðslur líkt og karlastétt sem þær báru sig saman við fékk. Sveitarfélagið þurfti að greiða 757 milljónir punda eða um 130 milljarða íslenskra króna sem setti sveitarfélagið í afar erfiða fjárhagsstöðu.
„Þannig erum við ekki bara að tala um starfsmat í þágu launajafnréttis heldur einnig sem mikilvægt áhættustýringartæki,“ sagði hún.
Sagði hún að tryggja þyrfti að jöfnun launa milli markaða auki ekki, heldur dragi úr launamun kynjanna. Til þess að svo megi vera þarf að úthluta fjármagni til vanmetinna starfa umfram önnur.
Sagði hún að starfsmatskerfi sveitarfélaganna hefði haft mikið haft að segja um árangur sveitarfélaganna í jafnlaunamálum en þar gæfi á að líta ákveðið jafnvægi á milli líkamlegs og tilfinningalegs álags sem metið væri ábyrgð á fjármálum og velferð, svo dæmi væru nefnd.
Jafnlaunastofa er sjálfstæð starfseining í eigu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.
Starfsemi Jafnlaunastofu er tvíþætt:
Annars vegar er það verkefnastofa starfsmats
- Rekstur starfsmatkerfisins SAMSTARFS.
- Tillögur að mati og endurmati starfa til afgreiðslu í viðeigandi nefndum.
- Bráðabirgðaröðun starfa.
- Fræðsla og ráðgjöf varðandi starfsmat.
- Starfar fyrir faglega stjórn starfsmatsins
Hins vegar eru það önnur jafnlaunamál
- Fræðsla og ráðgjöf varðandi jafnlaunamál og virðismat starfa og samspil við jafnlaunavottun sem er aðeins að vefjast fyrir fólki.
- Uppbygging og miðlun þekkingar á jafnlaunamálum út frá reynslu sveitarfélaganna.
- Samstarf um þróun matskerfa.