Starfsmat sem leið að launajafnrétti

Segja má að hér á landi séu þrjú módel við grunnlaunasetningu.

Á almenna markaðinum eru laun ákvörðuð í ráðningarsamningum. Sveitarfélög byggja grunnlaunasetningu flestra starfa á starfsmati, en annars á launaröðunarköflum kjarasamninga. Launasetning á vegum ríkisins byggir á kjara- og stofnanasamningum. Í öllum tilfellum þarf launasetning að vera í samræmi við jafnlaunaákvæði laga og kröfur jafnlaunastaðals.

Þegar kemur að virðismati starfa hafa sveitarfélögin forskot með notkun starfsmatskerfis við grunnlaunasetningu. Með notkun þess er markvisst unnið gegn áhrifum hins kynskipta vinnumarkaðar þar sem ólík störf eru metin út frá sömu viðmiðum sem taka mið af eðli og inntaki allra starfa. Þannig hefur fjárhagsleg ábyrgð og ábyrgð á velferð fólks jafnt vægi og sömuleiðis er tilfinningalegt álag metið til jafns við líkamlegt álag. Launasetning á að byggja á faglegum viðmiðum sem ná til allra starfa með það að markmiði að tryggja réttláta launasetningu fyrir öll líkt og jafnlaunaákvæði laga kveða á um.

Tölur um launamun kynjanna, þar sem sveitarfélög skera sig úr með minnsta launamuninn, gefa sterklega til kynna að notkun starfsmatskerfis við launasetningu skili árangri í baráttu fyrir launajafnrétti. Er það tilefni til frekari rannsókna á launasetningaraðferðum og áhrifum þeirra á launamun kynjanna.

Jafnlaunastofa

Með stofnun Jafnlaunastofu, í samstarfi við Reykjavíkurborg, setur Samband íslenskra sveitarfélaga aukinn þunga í vinnu að launajafnrétti kynjanna en Jafnlaunastofu er ætlað að veita sveitarfélögum fræðslu og ráðgjöf í tengslum við starfsmat og jafnlaunamál. En Jafnlaunastofu er einnig ætlað að vinna að uppbyggingu og miðlun þekkingar um jafnalaunamál og koma að umbótum og þróun matskerfa til að meta bæði grunn- og viðbótarlaun til að tryggja að launasetning byggi á skýrt skilgreindum og málefnalegum viðmiðum í samræmi við jafnlaunaákvæði laga.