Starfskjör sveitarstjórnarfólks könnuð

Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur gert könnun á starfskjörum sveitarstjórnarfólk og eru niðurstöður birtar í skýrslu sem nálgast má hér. Slíkar kannanir hafa verið gerðar annað hvert ár allt frá árinu 2002 og er þetta í tíunda könnunin sem hefur verið gerð.

Markmiðið er að afla upplýsinga um kaup og kjör sveitarstjórnarfólks á Íslandi.  Þessar upplýsingar nýtast sveitarstjórnum við ákvörðun á greiðslum til framkvæmdastjóra sveitarfélaga (bæjar- og sveitarstjóra) sveitarstjórnarfulltrúa og einstaklinga sem starfa í nefndum á vegum sveitarfélaganna.

Í ár eru birtar upplýsingar um laun og launakjör á árinu 2019. Upplýsinganna var aflað með rafrænum spurningalista sem sendur var með tölvupósti í maí sl. Alls bárust svör frá 58 sveitarfélögum af 72. Vert er að taka fram að sum sveitarfélög svara ekki öllum spurningum.

Í skýrslunni kemur fram að mánaðarlaun framkvæmdastjóra sveitarfélaga eru mishá og fara þau oftar en ekki eftir stærð og umfangi sveitarfélaga. Árið 2019 var algengast að laun framkvæmdastjóra væru  á bilinu 1.101 – 1.700 þús. kr. á mánuði. Auk launagreiðslna fá framkvæmdastjórar einnig starfstengdar greiðslur og var algengast að þær væru undir 50 þús. kr. Til starfstengdra greiðslna teljast m.a. fastur bifreiðastyrkur, afnot af bíl, sími, fjarskipti og húsnæðiskostnaður.

Algengustu mánaðarlaun sveitarstjórnarfulltrúa voru 55 – 99 þús. kr. árið 2019. Þessar greiðslur eru mjög misháar eftir sveitarfélögum, enda er umfang starfsins mismikið og skiptir stærð sveitarfélaga þar mestu. Í skýrslunni er umfjöllun um starfskjör skipt eftir stærð sveitarfélaga. Fremst í skýrslunni er samantekt um helstu niðurstöður.

Hér má nálgast skýrsluna