Starfshópur um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadölum

Föstudaginn 16 apríl sl. kynnti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í ríkisstjórn áform um að settur yrði á fót starfshópur helstu hagaðila sem falið verði að koma með tillögur um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadölum til skemmri og lengri tíma.

Frá eldgosinu í Geldingadölum. Mynd: Hafsteinn Karlsson

Nú þegar hefur verið gripið til bráðaaðgerða á svæðinu af hálfu Grindavíkurbæjar auk þess sem veitt hefur verið  fé af fjárheimild Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til uppbyggingar á svæðinu. Mikilvægt er hins vegar að hugað verði að fyrirkomulagi á svæðinu til langs tíma en jafnframt að gripið verði til nauðsynlegra bráðaaðgerða og skýrari mynd fengin á aðkomu ólíkra aðila til frambúðar. Svæðið sem um ræðir er allt í eigu einkaaðila og réttur og hagsmunir þeirra miklir en á sama hátt eru hagsmunir samfélagsins miklir, bæði hvað varðar aðgang heimamanna að svæðinu og uppbyggingu ferðaþjónustu.

Í hópnum munu eiga sæti fulltrúar landeigendafélaganna tveggja á svæðinu, Grindavíkurbæjar, Áfangastaðastofu Reykjaness, Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurnesjum auk Skarphéðins Berg Steinarssonar, ferðamálastjóra, sem stýrir starfi hópsins.
 
Hópnum er ætlað að skila frumtillögum sínum til starfshóps til verndar innviðum vegna eldsumbrota á Reykjanesi, sem stýrt er af ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, eigi siðar en 30. apríl nk. Lokatillögur hópsins skulu liggja fyrir eigi síðar en 31. ágúst nk.