Starfshópur um nýtingu vindorku

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur skipað þriggja manna starfshóp til að gera tillögur til ríkisstjórnarinnar varðandi nýtingu vindorku, þ.á.m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum.

Hilmar Gunnlaugsson, hrl., er formaður starfshópsins, en auk hans eru Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður skipuð í hópinn. Starfshópurinn á að skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2023.

Ákvæði í sáttmála ríkisstjórnarinnar

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að setja skuli sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku. Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum, svo unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Tekið er fram að mikilvægt sé að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru; einnig að taka verði afstöðu til gjaldtöku fyrir slíka nýtingu.

Hlutverk starfshópsins verður að skoða og gera tillögur til ráðuneytisins um hvernig ofangreindum markmiðum verði náð. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn fari ítarlega yfir lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, að því er varðar meðhöndlun og málsmeðferð vindorku yfir 10 MW innan rammaáætlunar; auk lagafrumvarps og þingsályktunartillögu sem lögð voru fram 2021 um staðsetning vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands.

Þegar er hafin vinna við lögfræðilega úttekt á samanburði á lagaumhverfi vegna vindorkuvera í nokkrum löndum. Þar er einkum um að ræða Noreg, Danmörk, Skotland og Nýja Sjáland, þar sem aðstæður eru með líkum hætti og hérlendis við hagnýtingu vindorku, auk þess sem greindir verða helstu þættir í regluverki fleiri ríkja. Hinn nýskipaði starfshópur mun fá niðurstöður þessarar úttektar til afnota, þegar þær liggja fyrir og getur nýtt þær við vinnslu á tillögum sínum.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn vinni náið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga við undirbúning tillagna sinna og frumvarps til laga. Jafnframt er gert ráð fyrir samráði við hagaðila, hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir.

Að loknu mati og greiningu á viðfangsefninu er starfshópunum ætlað að vinna drög að lagafrumvarpi á grundvelli niðurstaða sinna.

Í skipunarbréfi er óskað eftir að starfshópurinn hugi m.a. að eftirfarandi spurningum og álitaefnum:

  • Hvort rétt sé að virkjunarkostir í vindorku heyri áfram undir lög nr. 48/2011, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, eða að þeir verið undanskildir þeim lögum, en að settar verði sérreglur um meðferð slíkra virkjunarkosta.
  • Hvernig haga eigi samspili hagnýtingar vindorku og skipulags- og leyfisveitingarferli þegar í hlut eiga viðkvæm svæði eða viðkvæmir þættir, eins og áhrif á náttúrufar og friðlýst svæði, fuglalíf, ferðamennsku, grenndarrétt eða önnur sjónarmið.
  • Hvernig ná eigi fram þeirri áherslu í stjórnarsáttmála að vindorkuver byggist helst upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum.
  • Hvernig ná megi fram sem breiðastri sátt um hagnýtingu vindorku meðal landsmanna eins og einnig er fjallað um í stjórnarsáttmála.
  • Hvort horfa eigi til þess að hið opinbera hafi með höndum einhvers konar forgangsröðun einstakra virkjunarkosta, heildarfjölda eða heildarstærð leyfðra vindorkuvera eða setji aðrar mögulegar skorður við vindorkunýtingu og fyrirkomulagi vindorkuvera.
  • Hvernig rétt sé að haga ákvörðunar- og leyfisveitingarferli virkjunarkosta í vindorku.
  • Hvernig best sé að haga gjaldtöku vegna hagnýtingar vindorku.

Af vef stjórnarráðsins 13. júlí 2022.