Starfshópur gegn hatursorðræðu skipaður

Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp gegn hatursorðræðu (e. hate speech) til að bregðast við vísbendingum um vaxandi hatursorðræðu í íslensku samfélagi.

Starfshópurinn mun vinna að því að ná fram samhæfðum aðgerðum gegn hatursorðræðu m.a. vegna  kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar með heildstæðri nálgun.

Meginhlutverk hópsins verður að skoða hvort stjórnvöld skuli setja fram heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu. Í því skyni verður starfshópnum falið að gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem miða að því að vinna gegn hatursorðræðu í íslensku samfélagi, til dæmis í formi vitundavakningarherferðar og/eða annarra aðgerða. Starfshópurinn mun hafa samráð við hagsmunasamtök í vinnu sinni.

Unnið verður að því að ná fram samhæfðum aðgerðum gegn hatursorðræðu m.a. vegna  kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar með heildstæðri nálgun. Er slíkt talið mikilvægt, m.a. til að stuðla að virkri þátttöku allra í íslensku samfélagi og að allir geti þar notið eigin atorku, þroskað hæfileika sína og notið sama athafnafrelsis og tjáningarfrelsis sem og frelsis til heilbrigðs lífs óháð kynþætti, kynhneigðar o. fl.

Í starfshópnum verða fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Jafnréttisstofu. Auk þess verða fulltrúar skipaðir af forsætisráðherra án tilnefninga.