Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum – drög að skýrslu

Drög að skýrslu verkefnisstjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.

Smelltu á myndina til að hala niður skýrslunni úr Samráðsgátt stjórnvalda.

Öll hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum er til og með 12. október nk.

Í aðgerðaáætlun gildandi stefnumótunar stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga er sett fram markmið um að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn í því skyni að vinna gegn mikilli endurnýjun í þeirra hópi. Í lýsingu á aðgerðinni segir að greina þurfi starfsaðstæður og kjör kjörinna fulltrúa og bera saman við sambærilega þætti innan annarra norrænna sveitarstjórna. Huga verði að orsökum mikillar endurnýjunar í ljósi þess að hátt hlutfall kjörinna fulltrúa gefi ekki kost á sér aftur til þátttöku í sveitarstjórnum eftir að hafa setið í þeim í eitt kjörtímabil.

Haustið 2021 skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Verkefnisstjórnin hefur nú skilað greiningu sinni og tillögum til úrbóta. Skýrslan skiptist í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er fjallað um álag, vinnufyrirkomulag og kjör kjörinna fulltrúa. Í öðru lagi er fjallað um beinan stuðning við kjörna fulltrúa og fræðslu þeirra. Í þriðja og síðasta lagi er fjallað um upplýsingamiðlun, þátttöku/íbúalýðræði og uppbyggileg samskipti.