Umboðsmaður Alþingis beinir því til sveitarfélaga, að standa verði rétt að valdaframsali vegna starfsmannaráðninga. Umboðsmaður hefur birt almenna samantekt á þeim lagaatriðum og sjónarmiðum sem sveitarfélög þurfa að hafa í huga svo að ráðning starfsfólks fari að lögum.
Umboðsmaður Alþingis beinir því til sveitarfélaga, að standa verði rétt að valdaframsali vegna starfsmannaráðninga. Umboðsmaður hefur birt almenna samantekt á þeim lagaatriðum og sjónarmiðum sem sveitarfélög þurfa að hafa í huga svo að ráðning starfsfólks fari að lögum.
Samantektin birtist í álit umboðsmanns vegna kvörtunar sem embættinu barst vegna ráðninga hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur. Athugunin laut í upphafi bæði að mati safnsins á hæfni umsækjenda og á því hvort sá aðili sem var til þess bær samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar hefði haft umsjón með ráðningarferlinu hjá safninu.
Að athuguðu máli telur umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um viðkomandi ráðningar hjá safninu. Sveitarfélög eru þó engu að síður hvött til að kynna sér umrætt álit og þá sem almenna umfjöllun um framsal valds til starfsmannaráðninga og þær kröfur sem gerðar eru í þeim efnum í sveitarstjórnarlögum.
Tekur umboðsmaður fram, að hann hafi veitt því athygli í þeim ráðningarmálum sveitarfélaga, sem hann hefur haft til athugunar á undanförnum misserum, að iðulega skortir skýrar upplýsingar um hver sé bær til að ráða fólk til starfa.
Hann undirstrikar jafnframt, að enda þótt umfjöllunin vísi til atvika í því máli sem kvörtunin fjalli um, þá sé henni einkum ætlað að draga fram með almennum hætti lagaatriði og sjónarmið sem sveitarfélög, og eftir atvikum ráðuneyti sveitarstjórnarmála, þurfi að hafa í huga í þessum málum og þá með hliðsjón af því hvort meðferð þeirra sé í samræmi við lög.
Í umfjöllun umboðsmanns kemur m.a. fram, að framsali á valdi framkvæmdastjóra sveitarfélaga til að ráða starfsmenn verði ekki komið á nema frá því sé gengið með formbundnum hætti, þ.e. í samþykkt um stjórn sveitarfélags eða með almennum fyrirmælum, sem sveitarstjórn samþykkir. Tilgangurinn sé m.a. sá að tryggja að það sé skýrt gagnvart íbúum sveitarfélags, starfsmönnum þess, umsækjendum um störf og öðrum sem eiga í samskiptum við sveitarfélagið hver fari með verkefni, valdheimildir og ábyrgð innan sveitarfélagsins varðandi ráðningar í tiltekin störf.