12. des. 2016

Sóknaráætlanir landshluta 2015-2019

Snemma árs 2015 skrifuðu landshlutasamtökin undir samning við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Mennta- og menningarmálaráðuneytið um gerð sóknaráætlana fyrir landshlutana árin 2015-2019. Sóknaráætlanir fela í sér mikla nýbreytni í opinberri stjórnsýslu þar sem verið er að færa aukna ábyrgð á útdeilingu fjármagns til landshlutasamtaka sveitarfélaga. Jafnframt er verið að einfalda framlög til einstakra landshluta, gera þau gegnsærri og láta þau í auknum mæli taka mið af hlutlægum mælikvörðum varðandi stöðu svæðisins.

Sóknaráætlanir landshluta eru sameiginlegt þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga. Verklagið sem byggt er á er nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu og vinnur Stjórnarráðið sem ein heild með einn málaflokk, byggðamál.

Markmið sóknaráætlana er að ráðstafa þeim fjármunum sem ríkið hefur varið í atvinnu-, byggða- og menningarmál í hverjum landshluta fyrir sig. Áætlanirnar eiga að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landhluta og þannig landsins alls. Einnig er áætlununum ætlað einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Á heimasíðu Byggðastofnunnar er nú hægt að nálgast sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta fyrir sig.