Sögulegar og stórfróðlegar hagtölur

Hagstofa Íslands hefur í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu veitt aðgang að sögulegu talnaefni í samfelldum tímaröðum. Kosningaþátttaka frá árinu 1938 og frambjóðendur og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnarkosningum frá árinu 1950 er á meðal þess efnis sem tengist sveitarstjórnarstiginu.

Hagstofa Íslands hefur í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu veitt aðgang að sögulegu talnaefni í samfelldum tímaröðum. Kosningaþátttaka frá árinu 1938 og frambjóðendur og kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnarkosningum frá árinu 1950 er á meðal þess efnis sem tengist sveitarstjórnarstiginu.

Þessu sögulega gagnasafni hefur verið skipt upp í venjubundna efnisflokka eða íbúa, samfélag, atvinnuvegi, efnahag og umhverfi og sem dæmi um efni sem er brotið niður á sveitarfélög má nefna mannfjölda, fjölda fæddra og dáinna, kosningaúrslit og vinnuaflsnotkun.

Gögnin eru tiltæk á nýjum undirvef hagstofunnar í sams konar veftöflum og annað talnaefni og verða framvegis uppfærð einu sinni á ári.

Þá eru einnig birtar tengdar fréttir sem hagstofan hefur gert innan einstakra efnisflokka. Þar á meðal er afar fróðleg umfjöllun um sveitarstjórnarkosningar á fullveldistímanum, sem rekur sögu þeirra allt frá árinu 1836, þegar fyrstu bæjarstjórnarkosningar fóru fram í Reykjavík. Þá höfðu innan 7% Reykvíkinga kosningarétt.

Þegar fyrst var kosið til sveitarstjórnar í hinum nýstofnaða Ísafjarðarkaupstað árið 1866 var þetta hlutfall ívið hærra eða liðlega 10%, en þá hafði 21 af 220 íbúum kaupstaðarins kosningarétt - og að sjálfsögðu allt karlar enda var kosningarétti kvenna þá verulegum takmörkunum háð.

Hagstofa-islands-fullveldisvefur