Skýrsla sem Byggðastofnun tók saman um vinnu- og skólasóknarsvæði og almenningssamgöngur hefur verið gefin út. Í skýrslunni eru sérstakar svæðagreiningar, þar sem m.a. er fjallað um styrkleika og veikleika hvers svæðis en einnig áskoranir með tilliti til almenningssamgangna.
Í skýrslunni, sem unnin var fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, er einnig að finna uppfærð kort af vinnu- og skólasóknarsvæðum með hliðsjón af samgöngubótum undanfarinna ára og eftir atvikum lagðar fram tillögur að áherslum og aðgerðum til úrbóta.
Í skýrslunni kemur fram að samhæfing áherslna í áætlunum ráðuneytisins í tengslum við vinnu- og skólasóknarsvæði sé mikilvæg fyrir byggðaþróun og geti gagnast sem viðmiðunarsvæði þegar þjónusta og innviðauppbygging á sviði hins opinbera er skipulögð. Þá kemur fram í skýrslunni að mikilvægt sé að auka þekkingu á vinnusókn á Íslandi.
Skýrslan hefur þegar komið að góðum notum í vinnu við áætlanir ráðuneytisins, svo sem við gerð grænbókar um samgöngumál og tillögu til þingsályktunar um byggðaáætlun.