Á árinu 2016 mældust lífskjör barna á Íslandi á heildina litið góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Þrátt fyrir þessa góðu heildarmynd eru óleyst vandamál til staðar, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum sem mælast undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra, að því er fram kemur í skýrslu sem Velferðarvaktin hefur gefið út um lífskjör og fátækt barna á Íslandi.
Á árinu 2016 mældust lífskjör barna á Íslandi á heildina litið góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Þrátt fyrir þessa góðu heildarmynd eru óleyst vandamál til staðar, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum sem mælast undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra, að því er fram kemur í skýrslu sem Velferðarvaktin hefur gefið út um lífskjör og fátækt barna á Íslandi.
Velferðarvaktin fól á síðasta ári EDDU öndvegissetri að gera rannsókn á lífskjörum og fátækt barna hér á landi. Fékk öndvegissetrið Kolbein Stefánsson félagsfræðing til verksins. Skýrslan byggir á rannsókn á þróun lífskjara og lífsgæða barna á þremur aðskildum tímabilum eða á uppgangstímabilinu 2005-2007, árunum eftir hrun 2008-2011 og á endurreisnartímanum 2012-2016.
Helstu niðurstöður eru að brýnasta sé að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra, en nærri fjögur af hverjum tíu börnum sem mælast undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Einnig þurfi að huga að börnum öryrkja. Af einstökum þáttum reyndist staða á húsnæðismarkaði hafa veruleg áhrif á lífskjör barna og þá sérstaklega barna einstæðra foreldra og öryrkja.
Þá kemur einnig fram í skýrslunni að Ísland hafi staðið hinum Norðurlöndunum að baki í útgjöldum vegna barnabóta, fæðingar- og foreldraorlofs og daggæslu á árinu 2016. Þá hafi Ísland ekki verið í fremstu röð Evrópulanda varðandi barnabætur og fæðingar- og foreldraorlof og reyndust réttindi til fæðingar- og foreldraorlofs allnokkuð frá því sem best gerist.
Í niðurstöðum skýrslunnar er m.a. lagt til að umönnunarbilið verði brúað, að tilfærslur til einstæðra foreldra verði auknar, að börn sem búa við fjárhagsþrengingar fái ókeypis skólamáltíðir og að niðurgreiðslur verði auknar til þeirra vegna tómstundastarfs. Þá er jafnframt bent á að gæta verði að stöðu öryrkja og fjölskyldna þeirra við breytingar á tilfærslukerfum.
Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Hún er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka og fylgir þeim eftir. Að velferðarvaktinni standa samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin.