Skipulagsmál í brennidepli

Drög að tillögu að viðauka við landskipulagsstefnu 2015-2026 hafa verið lögð fram á vef Skipulagsstofnunar. Í tillögunni er sett fram stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála og tekur hún eftir atvikum til allra viðfangsefna gildandi landsskipulagsstefnu.

Auk þess felur tillagan í sér breytingar á gildandi landsskipulagsstefnu varðandi skipulag haf- og strandsvæða m.t.t. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða.  Framundan eru rafrænir kynningarfundir í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga en jafnframt er opinn kynningarfundur haldinn í dag, 19. nóvember og verður upptaka frá þeim fundi aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar.

Þær tillögur sem nú eru lagðar fram eru afrakstur viðamikillar undirbúningsvinnu sem hófst á sl. ári. Sú vinna fólst meðal annars í fjölbreyttum forsendu- og greiningarverkefnum sem tengjast viðfangsefnum tillögunnar og hafa verið unnin bæði innan Skipulagsstofnunar og af ráðgjöfum. Tilgangur verkefnanna var að stuðla að því að við mótun landsskipulagsstefnu væri byggt á bestu fáanlegu upplýsingum. Verkefnin fólust meðal annars í að safna saman og greina fyrirliggjandi þekkingu um hin nýju áhersluefni landsskipulagsstefnu, loftslag, landslag og lýðheilsu, og draga fram fyrirmyndir hér á landi og erlendis um hvernig tiltekin markmið og áherslur á þessum sviðum endurspeglast í skipulagi.

Eftirfarandi eru helstu skýrslur og minnisblöð, þar sem niðurstöður framangreindra verkefna eru birtar:

  • Lýðheilsa og skipulag – Samantekt vegna mótunar landsskipulagsstefnu um lýðheilsu. Unnin af Matthildi Kr. Elmarsdóttur hjá Alta fyrir Skipulagsstofnun.
  • Loftslagsaðgerðir í skipulagi þéttbýlis, forsendugreining fyrir viðauka við landsskipulagsstefnu – Fyrirlestur Halldóru Hrólfsdóttur hjá Alta á morgunfundi um loftslagsmál og skipulag í þéttbýli.
  • Kolefnisspor landnotkunar – Minnisblað um losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar. Unnið af Stefáni Gíslasyni hjá Environice fyrir Skipulagsstofnun.
  • Landslag og vindorka – Samantekt vegna mótunar landsskipulagsstefnu um landslag. Unnin af Matthildi Kr. Elmarsdóttur hjá Alta fyrir Skipulagsstofnun.

Umsagnarfrestur um drögin er til 8. janúar n.k. Sambandið mun að sjálfsögðu veita umsögn um málið og verða frekari fréttir um þá vinnu birtar á næstu vikum.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs.