Stærsti árlegi viðburður sveitarstjórnarmanna í Evrópu, Evrópuvika svæða og borga, fór fram dagana 7.-10. október.
Stærsti árlegi viðburður sveitarstjórnarmanna í Evrópu, Evrópuvika svæða og borga, fór fram dagana 7.-10. október. Það eru Svæðanefnd (Committee of the Regions) og Byggðadeild Evrópusambandsins (DG Regio) sem standa fyrir Evrópuvikunni.
Yfirskrift Evrópuvikunnar í ár var „Svæði og borgir: Grunnstoðir fyrir framtíð Evrópusambandsins“ og meðal þess sem fjallað var um má nefna:
- Hlutverk svæða og borga í framtíðarsýn ESB
- Fjórða iðnbyltingin
- Evrópa fyrir alla
- Grænni Evrópa
Mikilvægt að vera upplýst um umræðuna og taka þátt í henni
Meðal þeirra sem sóttu Evrópuvikuna að þessu sinni var Eva Björk Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps og formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og var hún fús að svara nokkrum spurningum um Evrópuvikuna.
Hvað kom til að þú ákvaðst að taka þátt í Evrópuvikunni?
„Mér fannst yfirskriftin og innihald Evrópuvikunnar kallast á við þau viðfangsefni sem við erum að glíma við á sveitarstjórnarstiginu á Íslandi í dag. Loftslagsmál og heimsmarkmiðin þá sérstaklega. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur hér heima að vera upplýst um umræðuna og taka þátt í henni. Við á Íslandi megum passa okkur að vera ekki eyland þótt við búum á eyju. Við getum bæði miðlað og lært af öðrum Evrópuþjóðum og eigum ætíð að vera með puttann á púlsinum þegar kemur að okkar stóru sameiginlegu úrlausnarmálum. Þau verða ekki leyst eingöngu heima í héraði,“ sagði Eva.
Brussel er suðupottur samvinnunnar
Hvað viðburðir Evrópuvikunnar standa einna helst upp úr?
„Mér fannst upplýsingarnar um hin fjölmörgu styrktarverkefni sem eru í gangi innan Evrópusambandsins til að snúa við þróun loftslagsmála mjög áhugaverð, bæði til að bæta við græn svæði sem nýtast íbúum og einnig til útivistar, hvernig græn þök og byggingar, hrein orka og leiðir til að virkja íbúa ganga upp. Ég tel að við eigum ýmislegt ógert í þeim málum og þá er óþarfi að finna upp hjólið í þeim tilfellum sem búið er að þróa lausnir annars staðar. Einnig ánægjulegt að kynnast EFTA vinnunni og okkar hlutverk í henni.“
Af hverju skiptir Brussel máli fyrir Skaftárhrepp?
„Brussel skiptir okkur miklu máli því þar er suðupottur samvinnunnar í Evrópu. Þótt við séum sjálfstæð þjóð þurfum við að vera þjóð meðal þjóða og þá skiptir samtal og samvinna öllu máli. Ekki einungis milli ríkisstjórna heldur einnig á sveitarstjórnarstiginu. Þar er grasrótin og þar gerast hlutirnir sem skipta máli þegar kemur að því að breyta neyslumynstri og jafna kolefnissporið.“