Efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins eru gríðarlegar og ríki heims standa nú frammi fyrir enn einni áskoruninni. Með hvaða hætti á að koma hagkerfum ríkja af stað á ný og hvernig má tryggja að markmið um sjálfbært samfélag sé haft að leiðarljósi í þeirri uppbyggingu?
Efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins eru gríðarlegar og ríki heims standa nú frammi fyrir enn einni áskoruninni. Með hvaða hætti á að koma hagkerfum ríkja af stað á ný og hvernig má tryggja að markmið um sjálfbært samfélag sé haft að leiðarljósi í þeirri uppbyggingu?
Evrópusamtök sveitarfélaga hafa fjallað um málið enda munu ákvarðanir og aðgerðir borga, bæja og sveitarfélaga skipta miklu máli í þessu samhengi.
Græn áhrif COVID-19 faraldursins
Viðbrögð við COVID-19 faraldrinum sýna að samfélög geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum. Faraldurinn krafðist markvissra aðgerða yfirvalda og vilja almennings til að fylgja tilmælum. Markmiðið var auðvitað að vernda líf og heilsu fólks, en það er einnig áhugavert að skoða aðra hluti sem aðgerðirnar höfðu áhrif á. Meðal þess má nefna áhrif þeirra á umhverfið og þá einkum minni loftmengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Tími breytinga er núna
Við höfum séð hverju er hægt að áorka þegar markvissar aðgerðir og vilji almennings koma saman. Það er því freistandi að draga þá ályktun að nú sé tími til þess að lyfta grettistaki í aðgerðum sem snúa að sjálfbæru samfélagi. En er það mögulegt á tímum sem þessum? Ljóst er að mörg ríki Evrópu hafa hægt verulega á aðgerðum sem kynntar hafa verið í tenglum við Grænan sáttmála ESB. Hversu mikið það á eftir að hafa áhrif á markmið ESB um t.d. kolefnishlutlausa Evrópu árið 2050 á eftir að koma í ljós. Þá er ákveðin hætta á að tveggja metra reglan leiði til þess að fleiri noti einkabifreiðar í stað almenningssamgangna.
Það eru hins vegar margir sem telja að nú sé tækifæri til þess að hraða leið okkar að meiri sjálfbærni og umhverfisvænni lífsháttum. Í Evrópu hafa margir borgarstjórar t.d. hvatt ESB til þess að hraða orkuskiptum í álfunni. Þá hefur United Cities and Local Governments, sem er alþjóðlegt samstarf borga- og sveitarstjórna, hvatt til þess að komið verði á fót Grænum sáttmála á heimsvísu. Sáttmálanum væri ætlað að tryggja að uppbygging hagkerfa ríkja heims sé sjálfbær og umhverfisvæn.
Evrópuþingið hefur einnig fjallað um málið. Í ályktun þingsins er lögð áhersla á grænan hagvöxt og nauðsyn þess að hagkerfi Evrópu verði minna háð bifreiðum og ósjálfbærum iðnaði. Í þessu tilliti lagði Evrópuþingið áherslu á að Græni sáttmálinn og Stafræna bylting yrðu leiðarljós ESB við endurreisn hagkerfa Evrópu.
Sjálfbærar samgöngur
Það er ljóst að samgöngur gegna lykilhlutverki í sjálfbærri uppbyggingu hagkerfa Evrópu. Í því samhengi er vert að minna á að það er ekki einungis umhverfisvænna að taka strætisvagn, hjóla eða ganga. Það er einnig mun hagkvæmara en að notast við einkabifreiðina, auk þess að stuðla að aukinni hreyfingu. Er lærdóm að finna í því ástandi sem ríkt hefur? Umferð dróst verulega saman þar sem fólki var t.d. meinað að sækja vinnu. Slíkt ástand var auðvitað á engan hátt eðlilegt og því mun umferð bifreiða óumflýjanlega aukast á ný. En þurfum við að falla í sama farið? Hverju skilar það t.d. að veita þeim sem geta unnið heima aukið svigrúm til þess? Hversu mikil áhrif hefði það á umferð í borgum og bæjum og þar má á mengun frá umferð?
Í borgum og bæjum um alla Evrópu er nú unnið með hugmyndir sem byggja á reynslu undanfarinna mánaða. Í Mílanó er búið að taka 35 kílómetra af götum, sem áður þjónuðu bifreiðum, frá fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Í Manchester er áformað að göngugötu-væða stóran hluta miðbæjarins. Í úthverfum London er unnið að því að breikka göngu- og hjólastíga og loka fyrir umferð bifreiða. Í París er unnið með aðferðafræði sem kallast „15 mínútna borg“. Hugmyndin er að íbúar borgarinnar geti fundið allt sem þarft til þess að lifa góðu borgarlífi í innan við 15 mínútna fjarlægð frá heimilum sínum. Í París var byrjað að vinna með þessa aðferðafræði áður en COVID-19 faraldurinn skall á, en ljóst er að hugmyndin um „15 mínútna borg“ hefur styrkt sig enn frekar í sessi í kjölfar faraldursins.
Almenningssamgöngur á tímum veirufaraldurs
Þegar talað er um ágæti almenningssamgagna verður ekki hjá því komist að nefna að á tímum veirufaraldurs þá fylgir því óhjákvæmilega ákveðin áhætta að nota strætisvagna og lestar. Þó svo að margir geti brugðist við því og unnið heima eða notað einkabifreið á tímum sem þessum, þá er ljóst að milljónir fólks getur það ekki. Almenningssamgöngur munu því áfram skipa mikilvægan sess í samgöngukerfi okkar, en það þarf að tryggja að fólk líti á almenningssamgöngur sem öruggan samgöngumáta. Það þarf að koma í veg fyrir „flótta“ fólks yfir í einkabifreiðina.
Þessu samfara þarf að tryggja fjármögnun á rekstri og uppbyggingu almenningssamgagna. Þetta þarf að gera á sama tíma og búast má við tekjumissi í þessum geira sem öðrum. Spænsku sveitarstjórnarsamtökin vilja bregðast við þessu og hafa skorað á ríkisstjórn landsins að setja á stofn sérstakan sjóð sem ætlað er að veita 1 milljarði evra í verkefni í tengslum við sjálfbærar samgöngur.