Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú skilað umsögn til velferðarnefndar Alþingis um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og fylgt henni eftir á fundi með nefndinni. Líkt og fram kemur í frumvarpinu er meginmarkmið þess að búa til umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Í samræmi við umsögnina lögðu fulltrúar sambandsins áherslu á að sveitarfélögunum verði veitt svigrúm til að útfæra og skipuleggja þau nýju verkefni sem felast í frumvarpinu eins og best hentar á hverjum stað. Að sama skapi var lögð rík áhersla á aðkomu sveitarfélaga að útfærslu þeirra verkefna sem á eftir að vinna s.s. skipulag þeirrar stefnumótunar sem kveðið er á um í frumvarpinu, stigskiptingu þjónustu, mótun árangursmælikvarða og mat á ávinningi sem og að öllum ákvörðunum er varða fjármögnun og skiptingu fjármagns milli sveitarfélaga. Í umsögn sambandsins er lagt til að gert verði samkomulag um fjárhagsþætti málsins, ábyrgðarskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis og fleiri atriði.

Gagnlegar umræður urðu á fundinum um frumvarpið og áhrif þess á starfsemi og fjárhag sveitarfélaga. Var m.a. rætt um mikilvægi þess að fækka gráum svæðum í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, auka aðgengi og framboð að fjölbreyttum úrræðum fyrir börn, persónuvernd í tengslum við samvinnu aðila, getu sveitarfélaga til að takast á við verkefnið og samvinnu þeirra á milli í því sambandi sem og mikilvægi þess að skýra fjármögnun.

Sambandið fylgist áfram grannt með framgangi frumvarpsins og á von á góðri samvinnu við Alþingi og félagsmálaráðuneytið um áframhaldandi vinnu.