Samstarf um að efla nýsköpun hjá hinu opinbera

Marta Birna Baldursdóttir, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði nýlega frá væntanlegu samstarfi fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að endurvekja nýsköpunarverðlaun í opinberri stjórnsýslu og þjónustu og gera jafnframt könnun á nýsköpun hjá hinu opinbera. Verðlaunin voru síðast veitt á árinu 2015.

Marta Birna Baldursdóttir, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði nýlega frá væntanlegu samstarfi fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að endurvekja nýsköpunarverðlaun í opinberri stjórnsýslu og þjónustu og gera jafnframt könnun á nýsköpun hjá hinu opinbera.

Verðlaunin voru síðast veitt á árinu 2015, en hvað könnunina snertir, þá verður skoðað hvort hægt sé að byggja á „Innovationsbarometer“, norrænni könnun sem var upphaflega þróuð af dönsku stofnuninni Center for offentlig innovation.

Könnunin hefur síðan breiðst út til annarra Norðurlanda og gefur þar með færi á norrænum samanburði.

Norðurlöndin standa framarlega í  nýsköpun í opinberri þjónustu og áhugi er á því að efla norrænt samstarf á þessu sviði. Þá er í öllum löndunum lögð áhersla á mikilvægi þess, að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að efla nýsköpun innan opinbera geirans. Um þetta var m.a. rætt á fundi í Kaupmannahöfn í desember sl. sem Marta Birna og Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, tóku þátt í.

Þá er, að sögn Önnu Guðrúnar, góður samhljómur á milli þessa og áherslu ríkisstjórnarinnar í sáttmála sínum um að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og verkefna í þágu loftslagsmarkmiða.

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála gekkst 25. janúar sl. fyrir áhugaverðum morgunverðarfundi undir yfirskriftinni Hvernig má efla nýsköpun í opinberum rekstri ríkis og sveitarfélaga? Nýjar kröfur, æskilegir stjórnunarhættir og stofnanamenning nýsköpunar – Lærdómsrík dæmi um nýsköpun í opinberum rekstri á Íslandi.

Á fundinum fjallaði Marta Birna um það sem Íslendingar geta lært af hinum Norðurlöndunum og kynnti við það tækifæri væntanlegt samstarf ráðuneytisins og sambandsins í þessum efnum, eins og áður segir.

Fundur-um-norraent-nyskopunarsamstarf-2017Myndin hér að ofan varð til á fundinum sem fram fór í Kaupmannahöfn í desember sl. og sýnir á skemmtilegum hátt afrakstur umræðna um norrænt nýsköpunarsamstarf í opinberri þjónustu.