Samræmdum prófum aflýst

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum komu upp alvarleg vandamál við innskráningu nemenda í 9. bekk í samræmt próf í íslensku sl. mánudag, 8. mars.

Fræðslumálanefnd sambandsins ályktaði um málið 10. mars og var samþykkt svohljóðandi bókun:

Fræðslumálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir miklum vonbrigðum með framkvæmd og fyrirlagningu samræmds prófs í 9. bekk mánudaginn 8. mars sl. Ekki er viðunandi að bjóða nemendum upp á það ítrekað að framkvæmd samræmdra prófa raskist vegna tæknilegra vandamála. Mikilvægt er að leitað verði lausna á þeirri stöðu sem upp er komin með hagsmuni og réttindi nemenda að leiðarljósi í góðu samstarfi aðila skólasamfélagsins. Fræðslumálanefnd hvetur eindregið til þess að nemendur hafi val um það hvort þeir þreyta prófin í ljósi aðstæðna og að tímabil próftöku verði lengt til muna til að nemendur og starfsfólk skóla geti gert ráðstafanir vegna annarra mikilvægra verkefna á dagskrá skólaársins.
Þá hvetur fræðslumálanefndin til þess að vinna við framtíðarskipan samræmds námsmats verði tekin föstum tökum og byggt á tillögum starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Taka þarf ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag, tryggja fjármagn til þeirra breytinga með fullnægjandi hætti og vanda allan undirbúning. Tryggja þarf hagsmuni nemenda og gæta þess að þeim séu skapaðar tryggar prófaaðstæður. Nú er rétti tíminn til að stíga ákveðin skref í átt að framtíðarfyrirkomulagi í breiðri sátt á grundvelli þeirra tillagna sem menntamálaráðherra hefur fengið í hendur.

Bókun Fræðslumálanefndar sambandsins, 10. mars 2021.

Í yfirlýsingu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu 11. mars sl. kemur fram að ákveðið hefur verið að aflýsa hefðbundnum samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem ráðgert var að leggja rafrænt fyrir nemendur í 9. bekk í næstu viku. Þessi ákvörðun byggir fyrst og fremst á hagsmunum nemenda og sjónarmiðum skólasamfélagsins. Nemendum verður hins vegar gefið val um að taka könnunarpróf í viðkomandi greinum á tímabilinu 17. mars - 30. apríl nk. Menntamálastofnun ber að tryggja þá framkvæmd. Skipulag fyrirlagnarinnar skal undirbúin í samráði við skólasamfélagið og miðast við lágmarksröskun á skólastarfi.

Varðandi framtíðarfyrirkomulag samræmdra prófa segir í yfirlýsingu ráðherra:

Núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa er komið á endastöð. Grundvallarbreyting á samræmdu námsmati hefur verið í undirbúningi, þar sem markmiðið er að tryggja betur hagsmuni nemenda og þarfir þeirra fyrir skýrt námsmat. Unnið hefur verið að tillögum um framtíðarsýn fyrir samræmt námsmat og skilaði vinnuhópur skipaður af ráðherra skýrslu um málið í fyrra. Hópurinn lagði þar m.a. til að þróuð yrðu heildstæð matstæki fyrir skóla, í mörgum námsgreinum, sem koma skyldu í stað samræmdra könnunarprófa. Þar yrði áhersla á fjölbreytt og hnitmiðuð rafræn próf og verkefni, ásamt auknu valfrelsi skóla til að nýta sér þau.

Námsmat er mikilvægt verkfæri til þess að efla starfið í menntakerfinu – til að hvetja nemendur og gefa þeim upplýsingar um hvar þeir standa, fyrir kennara til þess að mæla árangur af sínum aðferðum og áherslum og fyrir skólastjórnendur og menntayfirvöld til þess að fylgjast með þróun mála. Okkar er að tryggja að námsmat sé gagnlegt, um það ríki sátt og skilningur og að áherslur séu í samhengi við aðalnámskrá. Við viljum stuðla að skýrri og skjótri endurgjöf fyrir nemendur og kennara og tillögur hópsins styðja það markmið okkar,“ segir ráðherra.

Nánari upplýsingar um framkvæmd könnunarprófa í vor

Menntamálastofnun hefur sent skólastjórum grunnskóla nánari upplýsingar um framkvæmdina. þar segir m.a.: „Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að fyrirlögn samræmdra könnunarprófa verði valkvæð fyrir nemendur í 9. bekk eins og fram kemur í meðfylgjandi fréttatilkynningu.

Ljóst þykir að þjónustuaðili prófakerfisins hefur ekki gert fullnægjandi lagfæringar á kerfinu og því er ekki verjandi að bjóða nemendum upp á próftöku við slíkar aðstæður. Í ljósi þess mun fyrirlögn hinna valkvæðu könnunarprófa fara fram á pappír.

Skólar eru beðnir um að tilkynna Menntamálastofnun um próftöku nemenda sinna. Óski nemandi eftir að taka samræmt könnunarpróf er rétt að skóli verði við óskum hans, sbr. tilkynningu ráðuneytisins.

Fyrirlagnartímabil prófanna verður frá 17. mars til 30. apríl. Skólar velja hvenær fyrirlögn á sér stað innan tímabilsins og tilkynna slíkt til Menntamálastofnunar.