Samnorrænt verkefni um kolefnishlutleysi smærri sveitarfélaga að fara af stað

Markmið verkefnisins er að aðstoða smærri sveitarfélögum að hrinda áætlunum í framkvæmd, auk þess að auðvelda innleiðingu nýrra lausna fyrir allt samfélagið.

„Nordic Transition Partnership for Climate Neutral Cities 2030“ er samnorrænt verkefni stutt af Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið leitast við að koma á fót norrænu samstarfi sem miðar að hraðari þróun smærri sveitarfélaga í átt að kolefnishlutleysi. Sérstök áhersla er lögð á hringrásarhagkerfið og hvernig innleiðing þess getur stuðlað að kolefnishlutleysi. Reykjavíkurborg er þátttakandi í framkvæmdahóp verkefnisins ásamt Viable Cities frá Svíþjóð, Smart Innovation Norway frá Noregi og Business Tampere frá Finnlandi. Leitað verður eftir þátttöku nokkurra sveitarfélaga hérlendis í verkefninu.

Markmið verkefnisins er að aðstoða smærri sveitarfélögum að hrinda áætlunum í framkvæmd, auk þess að auðvelda innleiðingu nýrra lausna fyrir allt samfélagið. Þetta er einnig vettvangur þar sem sveitarfélögin geta deilt reynslu sinni og lært af öðrum og þannig skapað sér norrænt tengslanet. Fyrsti fasi verkefnisins er gagnaöflun, en tekin verða viðtöl við nokkur sveitarfélög í hverju landi til þess að kynnast þeim áskorunum og tækifærum sem sveitarfélögin standa frammi fyrir í þessum málaflokki. Þessi gögn nýtast í gerð þarfagreiningar og mun niðurstaðan vonandi geta nýst sem flestum sveitarfélögum í náinni framtíð.

Upplýsingar um verkefnið á síðu Nordic Innovation: https://www.nordicinnovation.org/programs/ntp