Samningsumboð sveitarfélagana liggur hjá sambandinu

Að gefnu tilefni vill Samband íslenskra sveitarfélaga árétta að samningsumboð sveitarfélagana liggur hjá sambandinu en ekki einstaka sveitarfélögum.

Það þýðir að sveitarfélögin fela sambandinu fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar við viðsemjendur sína. Sveitarstjórnarfólk hefur þannig ekki beina aðkomu að kjaraviðræðum og ekki áhrif á framgöngu þeirra.

Undanfarnar vikur hefur sambandið átt í kjaraviðræðum við fulltrúa bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB. Þær viðræður hafa gengið illa og hafa félögin boðað til verkfalla víða um land. Sambandið hefur á undanförnum dögum skrifað undir kjarasamninga við Eflingu, níu aðildarfélög BHM, Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara. og hefur lagt á borðið mjög sanngjarnt tilboð til félagsmanna bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB, þar sem áherslan er á að lyfta lægst launuðu hópunum. Tilboðið er sambærilegt við þann kjarasamning sem Efling skrifaði undir nýlega við sambandið og samkvæmt því fær félagsfólk bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB meiri launahækkun en í nýlegum kjarasamningum félaganna við ríki og Reykjavíkurborg.