Samkomulag undirritað milli ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk

Ríki og sveitarfélög undirrituðu í dag samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins.

Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.

Undir samkomulagið rituðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur orðið mikil framþróun í málefnum fatlaðs fólks, ásamt því að gerðar hafa verið lagabreytingar um aukna þjónustu. Ríkið hefur komið til móts við sveitarfélögin með aukinni fjármögnun en sveitarfélögin hafa engu að síður staðið frammi fyrir útgjaldaaukningu í málaflokknum. Núverandi samkomulagi er ætlað að koma til móts við það. Hækkun útsvarsins mun renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verða hluti af framlögum sjóðsins sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.

Í júlí 2022 skipaði félags- og vinnumarkaðsráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að móta tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið sem nú hefur verið undirritað byggist á vinnu hópsins.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
„Í dag náðum við afar mikilvægum áfanga varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks, og það er mikið gleðiefni. Sveitarfélögin fá umtalsverða aukningu fjármagns til málaflokksins. Ríki og sveitarfélög munu líka halda áfram við kortlagningu, greiningu og gerð tillagna er snúa að börnum með fjölþættan vanda, fullorðnum sem sæta öryggisþjónustu og varðandi það að vinna niður biðlista eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Ég hlakka til þeirrar vinnu.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Fjárhagsrammi málaflokks fatlaðs fólks styrkist verulega með samkomulaginu, en það felur í sér að ríkið hefur þá veitt hátt í 12 milljörðum króna til eflingar málaflokksins frá árinu 2022. Það er ánægjulegt að loks fáist niðurstaða milli ríkis og sveitafélaga í þessum veigamikla málaflokki.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra:
„Sveitarfélögin hafa sinnt þjónustunni í þessum mikilvæga málaflokki með miklum sóma frá því þau tóku við rekstri málaflokksins í ársbyrjun 2011. Það hefur hins vegar verið á brattann að sækja í rekstrinum og hefur ríkissjóður látið sveitarfélögunum í té aukið fjármagn til rekstursins nokkrum sinnum á tímabilinu. Undirritun samkomulagsins í dag er mikið ánægjuefni, en með því er ríkið að færa sveitarfélögunum um 6 milljarða króna til viðbótar til reksturs þessa mikilvæga málaflokks.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga:
„Sambandið lítur svo á að samkomulagið sé áfangi á þeirri leið að ná sátt um fjármögnun og framtíðarskipulag þjónustu við fatlað fólk. Það liggja fyrir greiningar um málaflokkinn sem sýna okkur að til að tryggja fötluðu fólki þá þjónustu sem þau vilja er mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að þróa þjónustuna áfram og tryggja fjármögnun, í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Það er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks sem og tækifæri til sjálfstæðs lífs.“

Þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk

Aðilar samkomulagsins eru sammála um að gera þurfi breytingar á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk til þess að tryggja sambærilega þjónustu milli sveitarfélaga og betri nýtingu fjármagns.

Þá eru aðilar samkomulagsins sammála um að haldið verði áfram með kortlagningu, greiningu og gerð tillagna um stöðu og framtíð barna og ungmenna með fjölþættan vanda, einstaklinga 18 ára og eldri sem dæmdir hafa verið til að sæta öryggisgæslu eða öðrum öryggisráðstöfunum, og tillagna um stöðu og framtíð þjónustu við ungt fólk á hjúkrunarheimilum. Auk þess verður vinnu haldið áfram við stefnu og framkvæmdaáætlun til 7-10 ára um framtíðaruppbyggingu í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.

Loks hafa aðilar samkomulagsins samþykkt að stofnaður verði sérstakur framtíðarhópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem vinna mun að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk. Ríki og sveitarfélög munu veita tímabundið framlag til þróunarkostnaðar í þjónustu við fatlað fólk.

Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdarstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra undirrita samkomulagið.