Í dag tóku formlega gildi nýjar reglur um notkun snjalltækja í grunnskólum Fjarðabyggðar. Reglurnar eru setta í því skyni, að hlífa börnum við þeim vandamálum sem fylgja aukinni snjalltækjanotkun. Fjarðabyggð hefur þar með bæst við þann vaxandi hóp sveitarfélaga sem stemmt hafa stigu við notkun snjalltækja í skólatíma.
Í dag tóku formlega gildi nýjar reglur um notkun snjalltækja í grunnskólum Fjarðabyggðar. Reglurnar eru settar í því skyni, að hlífa börnum við þeim vandamálum sem fylgja aukinni snjalltækjanotkun.
Notkunarreglurnar fela í megindráttum í sér að skorður eru settar við notkun eigin snjalltækja á skólatíma. Mælst er til þess að nemendur geymi tækin sín heima og að slökkt sé á þeim, séu tækin tekin með í skólann.
Áður en reglurnar tóku gildi, var snjalltækjakostur grunnskólanna í sveitarfélaginu stórbættur og verður jafnframt unnið að því að bæta nettengingar á næstu vikum. Reglunum er því ekki síður ætlað að styðja við þróun kennsluhátta og auka fjölbreytni í námi en að reglubinda einkanotkun snjalltækja í skólatíma.
Notkunarreglurnar voru samþykktar af bæði bæjarráði og bæjarstjórn Fjarðabyggðar og hafa verið kynntar starfsmönnum, nemendum og forráðamönnum þeirra. Kemur fram í frétt Fjarðabyggðar um málið, að reglunum hafi verið vel tekið. Með nýjum reglum sé jafnframt vonast til að jafnræði meðal nemenda aukist, nemendur nái enn betri einbeitingu og árangri í námi og félagsleg samskipti eflist.
Ljóst er að víða er í gangi umræða um snjalltækjanotkun nemenda og má ætla að reynsla Fjarðabyggðar geti nýst fleiri sveitarfélögum.