Í Samráðsgátt liggja nú frammi til umsagnar drög að nýrri reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Í drögunum er lagt til að fasteignasjóðnum verði heimilt á árunum 2021 og 2022 að úthluta samtals 363 milljónum króna í sérstök framlög sem nema 50% af heildarkostnaði tiltekinna framkvæmda sem lúta að ákveðnum verkefnum.
Verkefnin eru eftirfarandi:
- Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga og byggingum í eigu annarra aðila þar sem um er að ræða samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila.
- Úrbætur þannig að biðstöðvar almenningssamgangna séu aðgengilegar öllu fötluðu fólki svo og útivistarsvæði og almenningsgarðar.
- Úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks.
Drögin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar, en frestur til að skila inn umsögn er til og með 1. febrúar nk.
Í viðspyrnuáætlun sambandsins frá 19. mars 2020 vegna áhrifa Covid-19 eru sveitarfélög hvött til að ráðast í framkvæmdir við að bæta aðgengi fatlaðs fólks að mannvirkjum og útvistarsvæðum. Fyrirhuguð reglugerðarákvæði eru sett til að auðvelda slíkar framkvæmdir.