Ráðherra kynnir skipulagsmálanefnd frumvarpsdrög um nýja Þjóðgarðsstofnun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti á fundi skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær drög að frumvarpi til laga um nýja ríkisstofnun fyrir verndarsvæði á Íslandi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti á fundi skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær drög að frumvarpi til laga um nýja ríkisstofnun fyrir verndarsvæði á Íslandi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðgarðarnir þrír, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verði sameinaðir undir eina ríkisstofnun ásamt öðrum friðlýstum svæðum á landinu, þ.m.t. Breiðafjörður og verndarsvæði Mývatns og Laxár. Þá verði undirbúningur friðlýsinga, eftirlit á friðlýstum svæðum og stjórnun þeirra einnig á meðal verkefna nýju stofnunarinnar.

Ávinningur málsins er margþættur að sögn ráðherra, þ.á.m. aukin valddreifing og breiðari aðkoma sveitarfélaga og íbúa þeirra að stjórnun og stefnumótun innan náttúruverndar.

Frumvarpsdrögin byggja í megindráttum á vinnu starfshóps umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem skilaði tillögum sínum til ráðherra í febrúar síðastliðnum. Í þeim starfshópi áttu sæti, auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar frá þjóðgörðunum, Umhverfisstofnun og sveitarfélögum.

Ráðherra hefur frá því um miðjan ágúst haldið kynningarfundi hringinn í kringum landið um frumvarpsdrögin. Fundirnir hafa mælst vel fyrir, en þeir síðustu fara fram þann 3. september nk. á Suðurlandi.

Með ráðherra í för voru Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður ráðherra, Sigríður Svana Helgadóttir, lögfræðingur á skrifstofu landgæða og Steinar Kaldal, starfsmaður þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Að lokinni kynningu ráðherra og umræðu um frumvarpið gerði Steinar Kaldal grein fyrir helstu áherslum í vinnu nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og svaraði spurningum fundarmanna. Steinar vakti athygli á því, að vefsíða um störf nefndarinnar er aðgengileg á vef ráðuneytisins.

Má þar nálgast kynningarefni, fundargerðir og aðrar hagnýtar upplýsingar um málið.

Þá svaraði ráðherra og starfslið spurningum nefndarmanna, sem sneru m.a. að því stjórnkerfi náttúruverndarmála sem frumvarpsdrögin byggja á og gerir m.a. ráð fyrir að landinu verði skipt upp í sn. umdæmisráð. Einnig voru rædd áhrif löggjafarinnar á skipulagsvald sveitarfélaga.

Frestur til að skila inn umsögn um frumvarpsdrögin er til 5. september nk.

Umhverfisradherra-fundar-med-skipulagsmalanefndAf fundi umhverfis- og auðlindaráðherra með skipulagsnefnd sambandsins (fv) Margrét Björk Björnsdóttir, gestur fundarins og atvinnuráðgjafi hjá SSV, Orri Páll Jóhannsson, Sigríður Svana Helgadóttir, Steinar Kaldal, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Sigríður Auður Arnardóttir, Guðjón Bragason og Elín Líndal, nefndarmaður.  Við borðið sátu einnig nefndarmennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Páll Guðjónsson, Bráður Guðmundsson og Hjálmar Sveinsson. Aðrir starfsmenn sambandsins sem tóku þátt í fundinum voru Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, Lúðvík Gústafsson og Helga Guðrún Jónasdóttir.