Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur tekið ákvörðun um tímabundin frávik frá ákveðnum skilyrðum sveitarstjórnarlaga í þeim tilgangi að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélaga.
Er um að ræða sambærilega ákvörðun og ráðherra hefur áður auglýst vegna kórónuveirufaraldursins sem meðal annars gera sveitarstjórnum og nefndum sveitarfélaga kleift að halda fjarfundi og undirrita fundargerðir rafrænt. Er þetta þó í fyrsta sinn sem stuðst er við nýja málsgrein í 131. gr. sveitarstjórnarlaga sem samþykkt var á Alþingi 26. mars sl. en áður hafði ákvörðun ráðherra byggt á bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum sem nú er fallið úr gildi. Auglýsingin tók gildi 1. apríl og gildir til 31. júlí 2021.
Vakin er athygli á því að ef sveitarstjórn vill nýta sér umrædd frávik þá ber sveitarstjórn að taka ákvörðun um slíkt á sveitarstjórnarfundi og er heimilt að sá fundur sé fjarfundur. Þar sem heimild ráðherra er eingöngu tímabundin þarf sveitarstjórn að endurnýja ákvörðun sína í hvert sinn er ráðherra tekur ákvörðun um tímabundin frávik. Í ákvörðun sveitarstjórna skal koma fram hvaða frávik sveitarstjórn muni nýta sér í sinni starfsemi og útfærsla þeirra ef við á. Auglýsing ráðherra frá 30. desember 2020 gildir til 31. apríl nk. og því hafa sveitarstjórnir sem nýttu þá heimild tækifæri út apríl til að taka nýja ákvörðun á sveitarstjórnarfundi um að nýta umrædd frávik.