Ný persónuverndarlöggjöf, sem samþykkt var á Alþingi seint í gærkvöld, tekur gildi 15. júlí nk. Samband íslenskra sveitarfélaga gerði alvarlegar athugsemdir við frumvarp til laganna, m.a. fyrir skort á samráði um efni frumvarpsins, óhófleg sektarákvæði, mikinn innleiðingarkostnað hjá sveitarfélögum og afar nauman aðlögunartíma. Minnt er á tékklistann sem sambandið hefur gert fyrir sveitarstjórnir vegna málsins.
Ný persónuverndarlöggjöf, sem samþykkt var á Alþingi seint í gærkvöld, tekur gildi 15. júlí nk. Samband íslenskra sveitarfélaga gerði alvarlegar athugasemdir við frumvarp til laganna, m.a. fyrir skort á samráði um efni frumvarpsins, óhófleg sektarákvæði, mikinn innleiðingarkostnað hjá sveitarfélögum og afar nauman aðlögunartíma.
Verður vart séð hvernig sveitarfélög geti náð að undirbúa sig í tæka tíð.
Afar mikilvægt er í ljósi þeirra stöðu sem upp er komin, að sveitarstjórnir fari við allra fyrsta tækifæri yfir stöðu málsins hjá sér og geri áætlanir vegna innleiðingar á nýju löggjöfinni.
Áætlun um hvernig tekið verði á málum eftir gildistöku laganna, gæti vegið þungt í nauðsynlegum undirbúningi.
Þá er minnt á tékklistann fyrir sveitarstjórnir vegna málsins:
- Er kominn persónuverndarfulltrúi hjá sveitarfélaginu, sem uppfyllir þær ríku kröfur sem gerðar eru í lögunum?
- Hefur vinnsla sveitarfélagsins verið skoðuð og vinnsluskrá gerð?
- Hafa öryggiskerfi og skjalakerfi sveitarfélagsins verið skoðuð m.v. kröfur í nýjum lögum?
- Hafa samningar við vinnsluaðila verið yfirfarnir?
- Hefur sveitarfélagið sett sér persónuverndarstefnu og önnur skjöl sem lögin gera ráð fyrir?
- Er sveitarfélagið með áætlun um innleiðingu og hlítingu?
- Eru byggðasamlög til staðar?
Sé undirbúningur skammt á veg kominn er mikilvægt að búa til tímasetta verkefnaáætlun þar sem skipulagt er með nákvæmum hætti hvernig sveitarfélagið ætli sér að uppfylla kröfur laganna. Þar sem þessi vinna er ekki bara tímafrek heldur líka kostnaðarsöm skiptir skipulag höfuðmáli.
Með svo skamman tíma til stefnu er mikilvægt að sveitarfélög verði tilbúin að styðja vel hvert við annað og deila skjölum sem nýst geta öðrum. Má ásamt öðru gagnlegu efni nálgast á vef sambandsins persónuverndarstefnu Reykjanesbæjar sem er að mati sérfræðinga þess til fyrirmyndar og er sveitarfélaginu þakkað fyrir að vilja deila henni.
Á heildina litið er ráðning persónuverndarfulltrúa forgangsmál, en allar opinberar stofnanir verða að hafa persónuverndarfulltrúa starfandi hjá sér frá og með 15. júlí nk. Eru minni sveitarfélög eindregið hvött til þess að athuga hvort sameinast megi um slíkan starfsmann, sem væri t.d. með starfsstöð hjá viðkomandi landshlutasamtökum og sinnti tilteknu svæði. Þá er einnig mikilvægt að hafa hugfast að lögin taka til samstarfsverkefna sveitarfélaga, s.s. byggðasamlaga.
Þess má svo geta að vinna er í fullum gangi í Mentor-málinu og lýkur fundaröð með skjólastjórnendum næsta föstudag á Akureyri. Þá er sambandið að vinna ásamt Reykjavíkurborg að frekari innleiðingu hjá grunnskólum og upphafi innleiðingar í leikskólum og frístundastarfi. Er þar um brautryðjandaverk að ræða sem önnur sveitarfélög munu njóta góðs af og styrkt er af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.