Óskað eftir nokkrum sveitarfélögum til að rýna verkfærakistu í loftslagsmálum

Undanfarna mánuði hefur farið fram vinna við að útbúa verkfærakistu sveitarfélaga í loftslagsmálum sem ætlað er að styðja sveitarfélög við að setja sér loftslagsstefnu í sínum rekstri eins og kveðið er á um í lögum um loftslagsmál.

Verkfærakistan er mótuð í samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar með fjármagni frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Sambandið leitar eftir aðkomu nokkurra sveitarfélaga helst víðs vegar um landið við að prufa vefsíðuna sem búið er að setja upp og veita nauðsynlega endurgjöf um þau gögn og upplýsingar sem eru í verkfærakistunni. 

Í verkfærakistunni er að finna ýmis tól og fróðleik sem gerir sveitarfélögum kleift að meta losun sína og setja sér viðeigandi markmið og aðgerðir í loftslagsmálum, sem er grunnur fyrir mótun árangursríkrar loftslagsstefnu. Verkfærakistan inniheldur leiðbeiningar um gerð og innleiðingu loftslagsstefnu fyrir sveitarfélög. Hugmyndin er að í verkfærakistunni megi jafnframt nálgast loftslagsstefnur sveitarfélaga þegar þær eru tilbúnar.

Þau sveitarfélög sem vilja taka þátt í að rýna verkfærakistuna munu verða beðin um að:

  • Mæta á upplýsingafund um rýni verkfærakistunnar þann 30. júní kl. 13:00 sem verður fjarfundur.
  • Prufukeyra og rýna vefsíðuna hvert fyrir sig í sumar og jafnvel móta sér loftslagsstefnu ef mögulegt er. Athugið að safna getur þurft saman ýmsum gögnum úr rekstri sveitarfélagsins til að meta losun frá rekstri.
  • Safna saman og skila ábendingum um það sem má betur fara á innri og ytri síðu verkfærakistunnar fyrir 24. ágúst nk. til sambandsins og Umhverfisstofnunar.

Óskað er eftir að áhugasamir fulltrúar sveitarfélaga sem sjá sér fært að taka þátt í rýni verkfærakistunnar í sumar sendi tölvupóst á netfangið eygerdur.margretardottir@samband.is fyrir 25. júní nk.