Öflugur málsvari sveitarfélaga í 75 ár

Sveitarstjórnarmenn fagna því að nú í júní eru liðin 75 ár frá því að Samband íslenskra sveitarfélaga var stofnað. Árið 1945, þann 11. júní, komu sveitarstjórnarmenn saman til þriggja daga stofnfundar í Alþingishúsinu og markar sá dagur upphaf samstarfs sveitarfélaga á Íslandi.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Það var mikil gæfa fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu að strax var mönnum ljóst mikilvægi þess að sveitarfélögin ættu sér öflugan, sameiginlegan málsvara.  Málsvara sem komið gæti fram fyrir  hönd allra sveitarfélaga gagnvart Alþingi og ríkisstjórn og gætt þar hagsmuna sveitarstjórnarstigsins.  Hefur alla tíð síðan verið lögð áhersla á að góð samskipti og traust einkenni samskipti þessara tveggja stjórnsýslustiga.  Hefur góðum árangri verið náð hvað það varðar þó auðvitað sé það ekki þannig að allir gangi ávallt sáttir frá borði.  Það er þó öllum til hagsbóta að þessi tvö stjórnsýslustig gangi sem mest í takt, magni ekki deilur en reyni frekar að ná sáttum.  Enda er það fyrst og síðast sameiginlegt viðfangsefni ríkis og sveitarfélag að búa íbúum landsins eins góða þjónustu og búsetuskilyrði og kostur er.  

Í þau 75 ár sem Sambandið hefur starfað hefur það ávallt gengt veigamiklu hlutverki sem sameiginlegur vettvangur allra sveitarstjórnarmanna.  Á vettvangi þess er unnið að þeim verkefnum sem sveitarfélögum eru falin með lögum og þeim sem sveitarfélög hafa valið að sinna.  Þar er á fjögurra ára fresti unnin sameiginleg stefnumótun með breiðri þátttöku fulltrúa allra sveitarfélaga og er það síðan verkefni stjórnar og starfsmanna að vinna að framgangi þeirrar stefnumótunar. 

Sambandið hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna sem vettvangur umræðu um hin ýmsu hagsmunamál og hefur verið drifkraftur ýmissa verkefna sem til hagsbóta eru talin fyrir sveitarstjórnarstigið og íbúa landsins. 

Sveitarstjórnarstigið er einn mikilvægasta þáttur stjórnsýslunnar í landinu enda sinna sveitarstjórnir mikilvægum verkefnum og nærþjónustu við íbúa.  Í þessu samhengi er rétt að geta þess að sveitarfélögin hafa frá upphafi byggðar verið hornsteinn í stjórnskipan landsins, verandi elsta stjórnsýslustigið, eldra en framkvæmdavald ríkisins.

Sveitarfélögin hafa í gegnum tíðina bætt við sig verkefnum og má þar nefna yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna árið 1996 og yfirfærslu málefna fatlaðs fólks árið 2011.  Enginn efi er um það að þeim verkefnum er vel fyrir komið í höndum sveitarstjórnarmanna enda standa sveitarfélögin nær fólkinu í landinu sem eiga þar oft greiðari leið að ákvarðanatöku.  Í því ljósi ætti enginn að velkjast í vafa um mikilvægi þess að sveitarfélögin séu öflugar stjórnsýslueiningar, fjárhagslega sjálfstæðar, og í stakk búin til að veita íbúum nauðsynlega þjónustu.

Þegar Samband íslenskra sveitarfélaga var stofnað fyrir 75 árum var Ísland nýstofnað lýðveldi. Seinni heimsstyrjöldin var nýafstaðin og lífið á Íslandi var ekki samt og áður.  Bjartsýni ríkti í landinu og verkefnin sem biðu íbúa voru óþrjótandi.   Á Íslandi hafði heimskreppan haft mikil áhrif og mörg sveitarfélög börðust í bökkum, þörfin á samstöðu og samvinnu var óumdeild.  Sveitarstjórnarmenn þéttu raðirnar, stóðu sameinaðir að verkefnum og á árunum sem fóru í hönd efldist sveitarstjórnarstigð.  Nú sem fyrr blasa við sveitarstjórnarmönnum krefjandi verkefni.  Verkefni af þeirri stærðargráðu sem engan gat órað fyrir.  Risavaxin verkefni tengd loftslagsmálum og framtíð barna okkar og barnabarna í síbreytilegum heimi en ekki síður krefjandi verkefni tengd atburðum síðustu mánaða og afleiðingum heimsfaraldurs.  Samband íslenskra sveitarfélaga er nú sem fyrr bakhjarl sveitarstjórnarmanna og mun hér eftir sem hingað til sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem síbreytilegt samfélag kallar eftir.

Ég færi öllum núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum, starfsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrr og nú og öllum þeim öðrum sem komið hafa að starfi sveitarstjórnarstigsins þakkir fyrir þeirra mikilvæga starf.   Megi starf Sambands íslenskra sveitarfélaga eflast og dafna eins og það hefur gert svo farsællega frá árinu 1945. 

Aldís Hafsteinsdóttir
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga