Þessi orð lét Emilia Saiz, forseti Alþjóðasamtaka borga og sveitarfélaga, falla á alþjóðadegi í þágu útrýmingar ofbeldis gagnvart konum. Þá minnti hún á að ofbeldi gagnvart konum og stúlkum hefði aukist verulega í kjölfar Covid-19 faraldursins.
Á heimsþingi kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum, sem haldið var á dögunum kom fram að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að fjöldi kvenna og stúlkna sem beittar eru kynbundnu ofbeldi eykst um 15 milljónir.
Það er hins vegar ekki við Covid-19 að sakast. Núverandi ástand hefur einungis dregið huluna frá og neitt okkur til þess að horfast í augu við þá staðreynd að ofbeldi gegn konum og stúlkum er alvarlegt mein í samfélagi okkar. Það er sama hvert við horfum, konur og stúlkur eru beittar ofbeldi heima hjá sér, úti á götu, í almenningsgörðum, inni á almenningssalernum og á vinnustöðum.
Tölurnar segja svarta sögu:
- 1 af hverjum 3 konum verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni.
- 71% fórnarlamba mansals eru konur og stúlkur og af þeim verða 3 af hverjum 4 fyrir kynferðislegu ofbeldi.
- Á hverjum degi láta 137 konur lífið af hendi maka eða fjölskyldumeðlims.
- Í Frakklandi hafa 130 konur látið lífið af hendi maka á árinu.
- Í ríkjum ESB hefur 1 af hverjum 10 konum orðið fyrir stafrænu ofbeldi.
- Útköll og tilkynningar til lögreglunnar í Reykjavík sem tengjast ofbeldi voru 566 frá október 2019 til október 2020.
- Árið 2019 leituðu 565 einstaklingar til Bjarkarhlíðar í fyrsta viðtal. Bjarkahlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
- Árið 2019 komu 885 einstaklingar í viðtal hjá Stígamótum. Þar af voru 411 ný mál. Stígamót eru ráðgjafar- og fræðslumiðstöð sem vinnur gegn kynferðisofbeldi.
Við svo verður ekki búið og ábyrgð okkar er mikil, sagði Emilia Saiz. Það þarf að eiga sér stað grundvallarbreyting á hugsun og hegðun okkar þegar kemur að ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og borgar-, bæjar- og sveitarstjórnir hafa alla burði til þess að leiða það starf.
Alþjóðasamtök borga og sveitarfélaga eru regnhlífarsamtök sem er ætlað að tryggja að áherslur borga og sveitarfélaga séu hafðar til hliðsjónar í stefnumótun og aðgerðum ríkja heimsins. Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að samtökunum.