Nýtt upplýsingakerfi í þróun fyrir líðan og velferð barna

Félagsmálaráðuneytið, Kópavogsbær, hugbúnaðarfyrirtækið Kara Connect og UNICEF á Íslandi undirrituðu í dag samstarfssamning um þróun á samræmdu upplýsingakerfi vegna líðanar og velferðar barna. Samningurinn er liður í viðbrögðum stjórnvalda við könnun UNICEF á Íslandi sem bendir til, að 16,4% barna verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi hér á landi fyrir átján ára aldur.

Félagsmálaráðuneytið, Kópavogsbær, hugbúnaðarfyrirtækið Kara Connect og UNICEF á Íslandi undirrituðu í dag samstarfssamning um þróun á samræmdu upplýsingakerfi vegna líðanar og velferðar barna. Samningurinn er liður í viðbrögðum stjórnvalda við könnun UNICEF á Íslandi sem bendir til, að 16,4% barna verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi hér á landi fyrir átján ára aldur.

Verkefnið er tvíþætt og felur annars vegar í sér þróun á hugbúnaði til heildarstæðrar skimunar fyrir aðstæðum barna, svo að bjóða megi fyrr en áður snemmtæka þjónustu í nærumhverfinu. Hins vegar stendur til  að þróa eins konar mælaborð um líðan og velferð barna með söfnun og greiningu almennra tölfræðigagna.

Samhliða verkefninu verður starfandi stýrihópur skipaður fulltrúum m.a. samstarfsaðilanna. Þá verður fulltrúi Persónuverndar hópnum til ráðgjafar varðandi meðferð persónuupplýsinga.

Við undirritun samningsins kom m.a. fram að tölur UNICEF um hátt hlutfall barna, sem verður fyrir ofbeldi hér á landi, hafi sett óhug að félags- og barnamálaráðherra og samstarfsfólki hans. Áhersla hafi því verið lögð á að finna leiðir til úrbóta, þar sem þörfin er mest. Þá bindur bæjarstjórn Kópavogs vonir við, að samræmt upplýsingakerfi geti m.a. greitt fyrir snemmtækri íhlutun og stuðlað að aukinni velferð barna og uppvöxt við bestu skilyrði.

Ljósmyndin hér að ofan af undirrituninni fyrr í dag, er tekin af vef stjórnaráðsins, (f.v.) Birkir Jón Jónsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Köru Connect ehf.