Nýtt sveitarfélag á Vestfjörðum

Þann 19. maí tók gildi sameining sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum, Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, í eitt sveitarfélag. Nafn á sveitarfélagið hefur ekki verið valið en tímabundið heiti þess er Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Í mælaborði Byggðastofnunar um sveitarfélagaskipan aftur til ársins 1875 má sjá að sveitarfélög á Vestfjörðum eru nú 8 talsins, en þau voru flest 35 á árunum 1943-1963. Í Vestur-Barðastrandarsýslu, þar sem nýja sveitarfélagið er, voru sex sveitarfélög á þessum tíma: Barðastrandarhreppur, Rauðasandshreppur, Patrekshreppur, Tálknafjarðarhreppur, Ketildalahreppur og Suðurfjarðahreppur. Árið 1987 varð Bíldudalshreppur til úr Ketildala- og Suðurfjarðarhreppum en árið 1994 sameinuðust allir hreppar á svæðinu nema Tálknafjarðarhreppur í Vesturbyggð og hélst sú sveitarfélagaskipan óbreytt þar til nú.

Á vef Byggðastofnunar má finna myndskeið sem var unnið upp úr mælaborðinu og sýnir sveitarfélagaskipan á Vestfjörðum frá 1950 til dagsins í dag.