Nýtt skipurit sambandsins tók gildi 1. desember. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að greiningu á skipulagi sambandsins í samráði við stjórn og ýmsa ráðgjafa þar sem horft var til bæði rekstrar og þjónustu sambandsins.
Í nýju skipulagi er skerpt á hlutverki sambandsins og horft til þess að gera það í betur stakk búið til að takast á við þau verkefni og áskoranir sem sambandið sinnir frá degi til dags.
Markmiðið með breytingunum er að auka skilvirkni og bæta skipulag, þjónustu, samskipti og upplýsingaflæði, bæði inn og út á við, og auka sýnileika sambandsins gagnvart haghöfum og öðrum landsmönnum. Einnig að skapa skilyrði fyrir aukinni starfsánægju starfsfólks og góðri nýtingu mannauðs og fjármagns.
Aukin áhersla er lögð á teymisvinnu og sviðum fækkar úr fimm í þrjú. Ný svið eru stjórnsýslusvið, þróunarsvið og þjónustusvið. Samninganefnd sveitarfélaga sækir umboð sitt til kjarasamningsgerðar beint til stjórnar. Að öðru leyti heyrir starfsfólk samninganefndar undir framkvæmdarstjóra. Þá verða til nýjar stöður yfirlögfræðings og samskiptastjóra sem munu starfa þvert á svið.